Í færslu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra á Facebook segir að viðbragðsaðilar hafi verið komnir í sínar grunnbúðir skömmu fyrir miðnætti.
„Um er að ræða bandaríska ferðamenn sem eru sagðir vera vanir útivistar og fjallamenn. Frekari upplýsingar um málsatvik liggja ekki fyrir að svo komnu en rannsókn heldur áfram í fyrramálið,“ segir í færslunni.
Viðbragðsaðilum barst tilkynning klukkan 19:10 frá einum þeirra sem lenti í flóðinu.
Lögreglan á Norðurlandi eystra segir í tilkynningu á Facebook að þegar fyrstu viðbragðsaðlar hafi komið á vettvang klukkan 19:55 hafi strax tveir menn fundist og var annar þeirra slasaður. Stuttu seinna fannst sá þriðji í jaðri flóðsins og var hann einnig slasaður.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út á áttunda tímanum vegna snjóflóðsins. Hópslysaáætlun almannavarna var svo virkjuð vegna flóðsins og voru björgunarsveitir frá Dalvík, Siglufirði og Akureyri kallaðar út. Er áætlað að um 130 viðbragðsaðilar hafi tekið þátt í aðgerðunum.