Skoðun

Öflugt skóla­starf - fyrir fram­tíðina

Mjöll Matthíasdóttir skrifar

Ég er grunnskólakennari og stolt af því. Í ólgusjó síðustu missera hafa kennarar sýnt og sannað hvað í þeim býr. Ég er stolt af því að tilheyra kennarahópnum sem hefur haldið íslensku skólastarfi gangandi í heimsfaraldri. Með snarræði, sveigjanleika og lausnamiðuðum hugsunarhætti. Þetta er árangur sem vekur athygli víða um heim því þetta var ekki raunin í fjölmörgum löndum sem við berum okkur saman við.

Vissulega hefur reynt á og verkefnið hefur ekki alltaf verið auðvelt. En kennarar hafa leyst það með hag nemenda að leiðarljósi.

Skólastarf er í stöðugri framþróun og þarf að vera það. Því er mikilvægt að samfélagið hlúi að kennurum sínum og búi þeim góðar starfsaðstæður. Þar er verk að vinna. Kennarar eru að mennta fólk framtíðarinnar. Nemandi sem hefur grunnskólagöngu í haust mun væntanlega hefja starfsferil sinn á fimmta áratug aldarinnar! Hvernig sem heimurinn verður þá er eitt víst; Hann verður ekki eins og hann er í dag. Framtíð þjóðarinnar mun velta á því hvernig til tekst í skólastarfi næstu ára.

Grunnskólakennarar velja forystusveit sína nú í maí. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í kjöri til formanns Félags grunnskólakennara. Ég þekki af eigin raun ólíkar aðstæður

kennara í þéttbýli og dreifbýli. Ég hef setið í stjórn og samninganefnd FG og þekki vel til starfsemi Kennarasambandsins. Ég tel mikilvægt að aðildarfélög Kennarasambands Íslands starfi þétt saman - það er svo margt sem sameinar okkur.

Þau sem kjörin verða til forystustarfa eiga að leita eftir víðtæku samráði og afla sér yfirsýnar um aðstæður og vilja félagsmanna. Fleiri kennarar þurfa að koma að stefnumótun fyrir félagið. Mikilvægt er að fjölbreyttur hópur bjóði fram krafta sína til trúnaðarstarfa fyrir félagið. Ég skora á kennara að hugleiða hvað þeir geta lagt að mörkum. Ég er tilbúin að leiða hópinn en sterkust erum við saman.

Höfundur er grunnskólakennari í Þingeyjarskóla.




Skoðun

Sjá meira


×