Skoðun

Hvert verk lofar sig sjálft

Ingibjörg Isaksen skrifar

Þær langþráðu og ánægjulegu fréttir hafa nú borist frá Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra að búið sé að undirrita langtímasamninga um rekstur hjúkrunarheimila milli Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu og Sjúkratrygginga Íslands. Samningarnir eru til þriggja ára og er heildarupphæð þeirra tæpir 130 milljarðar.

Aukið fjármagn og betri þjónusta

Á samningstímanum á að vinna að verkefnum sem miða að því að bæta rekstrarumhverfi heimilanna til framtíðar og auka gæði í þjónustu. Samkvæmt nýjum samningum á að auka fjármagn til hjúkrunarheimila og bæta þjónustu við íbúa. Efla á þjónustu við þá einstaklinga sem þurfa hvað mesta umönnun með auknum framlögum í útlagasjóð og þá er áframhaldandi aukafjárveiting til lítilla hjúkrunarheimila tryggð. Í samningunum er einnig kveðið á um að styrkja úrræði fyrir yngri einstaklinga sem þurfa á þjónustu hjúkrunarheimila að halda og þá sem glíma við geð- og fíknisjúkdóma. Hér er um að ræða mikilvæga samninga sem stíga skref í að þróa áfram þá mikilvægu þjónustu sem eldra fólk á skilið að fá. Markmiði á ávallt að vera að veita góða þjónustu og tryggja öryggi íbúa. Þessir samningar sýna að sú er stefnan.

Horft til framtíðar

Þá er það einnig gleðiefni að samningsaðilar hafi samþykkt að setjast að borðinu með heilbrigðisráðuneytinu til að ræða þróun starfsemi hjúkrunarheimila með vinnuhópnum um endurskoðun á mats- og greiðslukerfi til hjúkrunarheimila.

Með vinnuhópnum er verið að horfa til lengri tíma varðandi þá þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilum og hvernig sú þjónusta muni þróast til framtíðar. Sérstaklega mikilvægt er að skoða tengingu greiðslna við gæðavísa til að skoða hvernig bæta megi breyttum kröfum um gæði og þjónustu.

Þá ætlar heilbrigðisráðuneytið beita sér fyrir því að skoða fyrirkomulag húsnæðismála hjúkrunarheimila, hér er um að ræða mjög spennandi og mikilvægt verkefni og áhugavert verður að fylgjast með þeirri vinnu.

Langþráður stöðugleiki

Þessir samningar marka mikilvæg tímamót, en nú eru loksins í gildi samningar til lengri tíma við rekstraraðila allra þeirra 45 hjúkrunarheimila sem starfa víðs vegar um landið samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Þá er það þýðingarmikið að samningarnir eru gerðir í góðri sátt. Með saminginunum hafa náðst veigamikil markmið um stöðugleika og fyrirsjáanleika varðandi þá þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilunum, því ber að fagna.

Höfundur er þingflokksformaður Framsóknar




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×