Skoðun

Allt á að vera uppi á borðum

Steinunn Þóra Árnadóttir skrifar

Við Vinstri græn erum hreyfing sem styður og vill styrkja samfélagslegt eignarhald á sem flestum sviðum. Það er því algjörlega ljóst að þegar ráðist er í sölu ríkiseigna verður að ríkja fullkomið traust til söluferilsins og algjört gagnsæi, um það hljótum við öll að vera sammála. Ekki leið á löngu frá því að sölu á 22% hlut í Íslandsbanka lauk uns vísbendingar komu fram um að pottur kynni að hafa verið brotin.

Það varð ljóst á ummælum forsætisráðherra strax í upphaf vikunnar að brugðist yrði við þeim aðstæðum sem upp voru komnar. Kaupendalistinn var birtur að frumkvæði stjórnvalda enda á almenningur rétt á slíkum upplýsinga þegar kemur að sölu á ríkiseignum, ekki síst þegar um ræðir banka. Listinn varð síst til að draga úr áhyggjum almennings. Sporin hræða og öll munum við hvernig misheppnaðar einkavæðingar banka fyrr á öldinni áttu stóran þátt í efnahagshruninu.

Það er mitt mat og ég tel það vera eðlilegan og réttmætan upphafspunkt þessarar rannsóknar að hún fari fram hjá Ríkisendurskoðanda, það er sá aðili sem við treystum til úttektar þeirrar sem um ræðir fyrir hönd Alþingis. Ríkisendurskoðandi er sjálfstæður og engum háður í störfum sínum og ákveður sjálfur hvernig hann sinnir hlutverki sínu samkvæmt lögum, enda hafa þingmenn bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu margsinnis falið embætti hans að gera athuganir á hinum ýmsustu málum.

Það er alveg ljóst að slík rannsókn er engin endastöð og ef í ljós kemur að úttektin frá Ríkisendurskoðun verður á einhvern hátt ekki nægjanlega yfirgripsmikil er eðlilegt að skipuð verði sérstök rannsóknarnefnd sem rannsaki málið. Þetta hafa þingmenn og ráðherrar sagt opinberlega enda er það mikið hagsmunamál fyrir land og þjóð að vel sé staðið að sölu ríkiseigna og brugðist hart við ef útaf ber. VG mun alltaf standa fyrir það að engu sé sópað undir teppið heldur sé allt uppi á borðum. Þá kemur ekki til álita að selja frekari hluti ríkisins í Íslandsbanka fyrr en farið hefur verið í saumana á þessu ferli og allar upplýsingar liggja fyrir.

Höfundur er þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×