„Kræklingur er herramannsfæða. Samtök hernaðarandstæðinga eru félagsskapur sem er umhugað um fjörunytjar og því hefur verið ákveðið að efla til kræklingatínsluferðar hernaðarandstæðinga í Hvalfirði mánudagsmorguninn 11. apríl næstkomandi. Reyndar hafa borist fregnir af því að bandarískir hermenn á æfingunni Norður-Víkingi hyggist æfa landgöngu á sama stað og á sama tíma,“ segir í yfirlýsingu frá samtökunum.
Guttormur Þorsteinsson formaður Samtaka hernaðarandstæðinga segir hress í samtali við fréttastofu að skörun viðburðanna hafi komið honum algjörlega í opna skjöldu. Hann viðurkennir þó fljótlega að ásetningur hafi staðið til annars en kræklingatínslu, og útilokar ekki að hernaðarandstæðingar hafi skilti við hönd á morgun. Það megi svo sem alveg ganga svo langt að kalla viðburðinn mótmæli.
„Við ætlum að fara í fyrramálið og kíkja þarna upp í Hvalfjörð. Það verður þarna á svipuðum stað og þessi æfing er plönuð, þannig að ætli við höfum ekki auga með henni líka,“ segir Guttormur glettinn og hvetur skipuleggjendur æfingarinnar til að snúa sér að tínslu sjávarfangs í stað heræfinga.
Hann segir að umfangið velti væntanlega á lokunum Bandaríkjahers í Hvalfirðinum en veit ekki hversu margir munu koma til með að mæta.
„Við grípum örugglega tækifærið og svona, reynum allavega að láta vita af því að við séum ekki hrifin af þessu,“ segir Guttormur.