Skoðun

Máls­varar fjár­festa í pontu Al­þingis

Ólafur Hauksson skrifar

Íslenska örþjóðin stendur undir háum rekstrarkostnaði og gríðarlegum hagnaði bankanna. Enginn annar. Almenningur borgar brúsann með vinnu sinni og viðskiptum.

Bankarnir fjórir högnuðust um 92 milljarða króna í fyrra. Þeir eiga gríðarlegar eignir og eru gullnáma fyrir fjárfesta. Arðsemi þeirra er sem meitluð í stein. Aðalástæðan er sú að engin samkeppni ríkir á milli bankanna. Þeir byggja allir á sömu uppskrúfuðu gjaldskránni. Útlánsvextir eru háir meðan innlánsvextir sleikja núllið. Kostnaður við rekstur bankanna hefur lækkað stórlega en samt er ekkert slegið af gjaldtökunni.

Þess vegna er hryggilegt að sjá þingmenn stjórnarandstöðu og mótmælendur á Austurvelli berjast fyrir fáránlega háum verðmiða á Íslandsbanka, verðmiða sem byggir á áframhaldandi okri á almenningi. Í ræðustól Alþingis tala þeir í raun máli fjárfesta, æpa sig hása yfir því að hlutir í Íslandsbanka hafi ekki verið seldir á nógu háu verði. Gengið er út frá því að fáokun bankanna muni standa um aldur og ævi til að tryggja arðsemi þeirra.

Ekki heyrist orð úr ræðustólnum um aðgerðir til að draga úr þeirri ánauð sem bankareksturinn veldur heimilum landsins. Þess í stað þyrpast stjórnarandstæðingar í pontuna til að tala um hvernig græða hefði mátt meira. Mest tala þeir þó um manninn sem keypti 0,0002% hlutinn í Íslandsbanka vegna þess að það er þægilegra að tala um hann en það sem skiptir máli. Rófan dillar hundinum.

Þessi þjónkun við fjármagnseigendur er með ólíkindum. Þetta skeytingarleysi um fólkið sem ber bankana á herðum sér alla daga er skammarleg.

Íslenskan almenning skiptir engu máli hvort fjárfestar borga milljónum meira eða minna fyrir hlut í Íslandsbanka eða hvort vanheilagir menn fái að kaupa. Það er ekki eins og ríkissjóður sé að tapa, hann fékk bankann gefins. Það eina sem skiptir almenning máli er að bankakostnaður fari að lækka fyrir tilstilli alvöru samkeppni á milli þeirra. Sömuleiðis að eiginfjárkrafan á bankana lækki, því hún kyndir undir hærri álögum. En á þetta minnast hinir hásu þingmenn ekki einu orði.

Höfundur er almannatengill.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×