Innherji

Brimgarðar bæta við sig í Reitum og fara með tæplega 5 prósenta hlut

Hörður Ægisson skrifar
Guðjón Auðunsson er forstjóri Reita en hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um rúmlega 23 prósent frá áramótum.
Guðjón Auðunsson er forstjóri Reita en hlutabréfaverð félagsins hefur hækkað um rúmlega 23 prósent frá áramótum.

Fjárfestingafélagið Brimgarðar, sem er á meðal stærstu hluthafa í öllum skráðu fasteignafélögunum, bætti enn við eignarhluti sína í liðnum mánuði og fer núna með tæplega fimm prósenta hlut í Reitum. Hlutabréfaverð Reita, stærsta fasteignafélags landsins, hefur verið á mikilli siglingu undanfarið og frá áramótum hefur það hækkað um rúmlega 23 prósent.

Samkvæmt uppfærðum hluthafalista Reita þá keyptu Brimgarðar rúmlega 8,83 milljónir hluta að nafnvirði í marsmánuði og stækkaði eignarhlutur félagsins við það úr 3,5 prósentum í 4,7 prósent. Sé litið til meðalgengis Reita í síðasta mánuði – sem var að jafnaði í kringum 90 krónur á hlut – má ætla að Brimgarðar hafi keypt bréfin fyrir samanlagt um 800 milljónir króna.

Brimgarðar, sem er í eigu systkinanna Guðnýjar Eddu, Eggerts Árna, Halldórs Páls og Gunnars Þórs Gíslabarna sem meðal annars eru kennd við heildverslunina Mata, eru í dag sjötti stærsti hluthafi Reita – félagið er umsvifamesti einkafjárfestirinn í hluthafahópnum – og er markaðsvirði eignarhlutar þess nú tæplega 3,8 milljarðar.

Þá hafa sjóðir Akta einnig að undanförnu verið að byggja upp stöðu í Reitum og hlutabréfasjóðurinn Stokkur í stýringu félagsins – sem er um 11 milljarðar króna að stærð – var þannig kominn með um 0,8 prósenta eignarhlut í fasteignafélaginu undir lok síðasta mánaðar, að því er lesa má út úr nýju eignayfirliti sjóðsins. Markaðsvirði þess hlutar er tæplega 700 milljónir.

Brimgarðar er dótturfélag Ölmu íbúðafélags, áður Almenna leigufélagið, sem eignaðist það um mitt árið í fyrra þegar það keypti félagið af Langisjór en það er í eigu sömu aðila og Brimgarðar. Eignarhaldsbreytingin var gerð í kjölfar þess að Langisjór hafði keypti leigufélagið, sem á um 1.100 íbúðir, í ársbyrjun 2021 fyrir um ellefu milljarða króna.

Gunnar Þór Gíslason, einn hluthafa Brimgarða.

Auk þess að vera með stóran eignarhlut í Reitum eru Brimgarðar langsamlega stærsti hluthafinn í fasteignafélaginu Eik með liðlega 30 prósenta eignarhlut, bæði í eigin nafni og eins í gegnum framvirka samninga og aðra fjármálagjörninga, og það sama á við um Reginn þar sem fjárfestingafélagið er með samanlagt vel yfir fimm prósenta hlut.

Í árslok 2021 nam bókfæri virði eignarhluta Brimgarða í fasteignafélögunum þremur samtals um 11,4 milljörðum króna, að því er fram kemur í ársreikningi Ölmu, móðurfélags Brimgarða, en þar munaði mestu um 6,9 milljarða króna hlut í Eik. Á síðasta ári var hagnaður vegna verðbréfa um 4,3 milljarðar króna, að mestu vegna eignarhlutar Brimgarða í fasteignafélögunum. Eignir móðurfélagsins voru bókfærðar á 82 milljarða í árslok en eigið fé var um 27 milljarðar króna.

Hlutabréfaverð allra skráðu fasteignafélaganna hefur hækkað mikið á síðustu mánuðum – á bilinu 33 til 37 prósent sé litið til síðasta hálfa ársins – og mun meira í samanburði við Úrvalsvísitöluna. Þar hefur meðal annars spilað inn í batnandi rekstrarhorfur með minnkandi áhrifum vegna faraldursins og útlit er fyrir vaxandi straumi ferðamanna til landsins.

Heildartekjur Reita, sem er með fjárfestingareignir upp á samtals 168 milljarða króna, námu 11.850 milljónum króna á árinu 2021 og jukust um tæplega 1.200 milljónir á milli ára. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu hækkaði sömuleiðis um liðlega 15 prósent og var rúmlega 7.740 milljónir á liðnu ári. Nýtingarhlutfall Reita stóð í 95,1 prósenti í árslok 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×