Samtals hefur lífeyrisjóðurinn á innan við þremur vikum keypt 28 milljónir hluta að nafnverði – hann á núna 132,6 milljónir hluta – og er í dag langsamlega næst stærsti hluthafi Íslandsbanka með 6,63 prósenta hlut. Miðað við meðalgengi hlutabréfa frá því að útboðinu lauk 23. mars síðastliðinn, sem hefur verið um 127 krónur á hlut, má ætla að LSR hafi bætt við sig bréfum fyrir samanlagt nærri 3,6 milljarða króna á tímabilinu.
Markaðsvirði Íslandsbanka stendur nú í 256 milljörðum og er því virði eignarhlutar LSR í bankanum um 17 milljarðar.
LSR var fyrir hlutafjárútboð ríkissjóðs þriðji stærsti hluthafi bankans með um 4,13 prósenta hlut en í útboðinu var sjóðnum úthlutað 22 milljónum hluta á genginu 117 krónur á hlut – aðeins Gildi fékk meira eða sem nam 30 milljónum hluta – sem hann keypti fyrir samtals tæplega 2,6 milljarða króna. Hlutabréfaverð Íslandsbanka hefur hækkað um liðlega 9 prósent frá því að útboðið kláraðist og stendur núna í 127,8 krónum á hlut.
Annar lífeyrissjóður, Lífsverk, hefur einnig verið að bæta umtalsvert við eignarhlut sinn í Íslandsbanka á undanförnum tveimur vikum og fer sjóðurinn núna með tæplega 1,2 prósenta hlut í bankanum. Hefur Lífsverk keypt um 7 milljónir hluta að nafnverði, sem jafngildir um 0,4 prósenta eignarhlut, frá því að útboðinu lauk fyrir nærri 900 milljónir króna.
Íslenskir lífeyrissjóðir fengu úthlutað meira en þriðjung þeirra eignarhluta sem ríkissjóður seldi. Samtals keyptu 23 lífeyrissjóðir, sem áttu fyrir útboðið samanlagt um 16 prósenta hlut í bankanum, fyrir 19,5 milljarða króna, eða sem jafngildir liðlega 8,5 prósenta eignarhlut, að því er fram kom í kynningu Bankasýslunnar. Lífeyrissjóðurinn Gildi, sem átti fyrir útboðið um 3,4 prósenta hlut, var stærsti einstaki fjárfestirinn og keypti fyrir samanlagt 3,5 milljarða króna og fer núna með rétt rúmlega 5 prósenta eignarhlut í bankanum. Hefur sjóðurinn aðeins lítillega bætt við hlut sinn í bankanum frá því að útboðinu lauk.
Úthlutanir til lífeyrissjóða námu að jafnaði um 40 prósent af þeirri upphæð sem þeir skráðu sig fyrir í útboðinu en líta verður til þess að lífeyrissjóðir sækjast eftir því að kaupa mun stærri hlut í krónum talið en flestir aðrir sem skiluðu inn tilboðum.
Samanlagður eignarhlutur íslenskra lífeyrissjóða í dag, eftir uppkaup þeirra á bréfum að undanförnu, er farinn að nálgast tæplega 30 prósent. Íslenska ríkið er eftir sem áður langsamlega stærsti eigandi bankans með 42,5 prósenta eignarhlut sem er í dag metinn á um 109 milljarða króna.
Fram hefur komið í kynningu Bankasýslunnar til ráðherranefndar um efnahagsmál að ákveðið hafi verið að morgni mánudagsins 21. mars að hefjast handa við markaðsþreifingar á meðal stórra innlendra fjárfesta, þremur dögum eftir að fjármálaráðherra hafði samþykkt tillögu Bankasýslunnar um að halda áfram með söluferlið. Í kjölfar þeirra samtala hófust einnig markaðsþreifingar við erlenda fjárfesta og fengnir voru fleiri söluráðgjafar að borðinu en í sambærilegum útboðum með tilboðsfyrirkomulagi, vegna áherslu á dreift eignarhald og að afla markaðsverðs fyrir hlutinn.
Byggt á þeim markaðsþreifingum, sem voru einkum við lífeyrissjóðina, voru fjárfestar reiðubúnir að kaupa að lágmarki 20 prósenta hlut á genginu 115 krónur á hlut, samkvæmt heimildum Innherja, en þegar fjárfestahópurinn var útvíkkaður eftir lokun markaða þriðjudaginn 22. mars til meðal annars einkafjárfesta og verðbréfasjóða var verðið í útboðinu ákvarðað 117 krónur á hlut. Það var 4 prósentum lægra en lokaverð síðasta viðskiptadags og í takt við það sem búast mátti við þegar jafn stór hlutur er seldur með hröðuðu tilboðsfyrirkomulagi á markaði.
Til samanburðar hefur evrópska fjármálafyrirtækið STJ Advisors, ráðgjafi Bankasýslunnar í ferlinu, bent á að í þeim útboðum sem hafa farið fram hjá skráðum evrópskum félögum á þessu ári með sambærilegu fyrirkomulagi hafi afslátturinn verið að meðaltali um 6,4 prósent. Eftir innrás Rússa í Úkraínu, sem hefur aukið óvissu og veltu á mörkuðum, hefur afslátturinn í slíkum útboðum verið enn meiri, eða um 8,4 prósent að jafnaði.
Mikill styr hefur staðið um söluferlið á Íslandsbanka og hafa sumir stjórnarþingmenn VG sagt gagnrýnivert hvernig Bankasýslan hafi haldið á málum við sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins og að auðveldara verði að endurheimta traust almennings ef stjórn og forstjóri stofnunarinnar myndu víkja.
Á meðal þeirra sem keyptu voru samtals 140 innlendir einkafjárfestar fyrir samanlagt 16 milljarða króna, eða tæplega 31 prósent þeirrar fjárhæðar sem ríkissjóður seldi. Þeir einkafjárfestar sem keyptu fyrir minna en 30 milljónir króna voru 59 talsins en í þeim hópi voru meðal annars starfsmenn þeirra fjármálafyrirtækja sem voru söluráðgjafar við útboðið.
Ríkisendurskoðun hefur fallist á beiðni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra að gera úttekt á söluferli Íslandsbanka og er niðurstöðu hennar að vænta í júní. Bankasýsla ríkisins, sem sá um framkvæmd sölunnar fyrir hönd ríkissjóðs, hefur gefið út yfirlýsingu þar sem öllum sjónarmiðum um að lög kunni að hafa verið brotin við söluferlið er vísað á bug.
Þá var greint frá því fyrr í dag að fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hafi ákveðið að hefja athugun á tilteknum þáttum sem tengjast sölunni á Íslandsbanka. Fjármálaeftirlitið hefur ekki eftirlit með Bankasýslu ríkisins og þá er því eins ekki falið eftirlit með framkvæmd laga um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækja. Rannsókn fjármálaeftirlitsins gæti meðal annars lotið að því hvort sumir þeirra starfsmanna fjármálafyrirtækjanna, sem komu að sölu á hlutum ríkisins á Íslandsbanka sem ráðgjafar og tóku samhliða þeim störfum þátt í útboðinu, hafi gerst brotlegir við lög um innherjaviðskipti.