Körfubolti

Logi Gunnars: Væri geggjað að fá Keflavík

Atli Arason skrifar
Logi Gunnarsson, fyrirliði Njarðvíkur.
Logi Gunnarsson, fyrirliði Njarðvíkur. Hulda Margrét

Njarðvík er komið áfram í undanúrslit eftir að hafa sópað KR-ingum út úr úrslitakeppni Subway-deildar karla, 3-0. Njarðvíkingar unnu KR 91-63 í þriðja og síðasta leik einvígisins. Fyrirliðinn Logi Gunnarsson var ánægður með leik sinna manna í kvöld.

„Rosa sáttur með okkur í kvöld. Við spiluðum frábæran varnarleik og gott að koma í þennan síðasta leik þar sem við gátum unnið seríuna og við unnum leikinn stórt, um 30 stiga sigur. Þannig við gátum hvílt nokkra leikmenn og þar á meðal mig í seinni hálfleik,“ sagði Logi Gunnarsson í viðtali við Vísi eftir leik.

Logi er ekki enn þá búinn að jafna sig alveg af veikindum en spilaði samt fyrri hálfleikinn, alveg þangað til hann þurfti að hvíla vegna meiðsla.

„Ég var veikur á laugardeginum í síðasta leik og ég er ekki búinn að ná mér almennilega. Svo fékk ég aðeins í kálfann í fyrri hálfleik, ég fann smá tak í honum og var hálf haltur í hálfleiknum þannig ég ákvað að láta Benna vita af því. Þá var ákveðið að ég myndi bara hvíla ef þetta væri frekar öruggt og við gerðum það.“

Njarðvík og Valur eru nú komin áfram í undanúrslit. Mögulegur mótherji Njarðvíkur í undanúrslitum er Grindavík, Tindastóll eða Keflavík. Nágrannarnir Njarðvík og Keflavík hafa ekki mætt hvort öðru í úrslitakeppni frá árinu 2010. Logi var að lokum spurður af því hvort það væri ekki draumur að fá Keflavík sem mótherja í undanúrslitum.

„Það væri auðvitað geggjað en við sjáum bara hvað gerist. Við bara hvílum okkur og reynum að jafna okkur á nokkrum hnökrum hér og þar. Það eru nokkrir smá meiddir, veikindi og svona. Við bíðum bara og sjáum til hvað gerist,“ svaraði Logi Gunnarsson, leikmaður Njarðvíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×