Innlent

Nokkur hundruð mót­mæltu á Austur­velli: „Bjarna Ben burt“

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Nokkur hundruð manns voru saman komin á Austurvelli en mótmælin hófust klukkan tvö í dag.
Nokkur hundruð manns voru saman komin á Austurvelli en mótmælin hófust klukkan tvö í dag. Vísir/Einar

Nokkur hundruð manns voru saman komin á Austurvelli í dag til að mótmæla sölunni á Íslandsbanka. Yfirskrift mótmælanna var „Bjarna Ben burt, spillinguna burt.“

Þess var krafist að sölunni á hlut ríkisins í Íslandsbanka yrði rift og að stjórn Bankasýslunnar myndi víkja. Eins og yfirskrift mótmælanna ber með sér kröfðust mótmælendur þess að Bjarni Benedtiksson fjármálaráðherra færi úr embætti.

Davíð Þór Jónsson prestur hélt ræðu við mikinn fögnuð mótmælenda. Fréttastofa ræddi við hann fyrr í dag en þar sagði hann almenningi misboðið: „Ég veit að fólki og almenningi og öllum þorra þjóðarinnar er gjörsamlega misboðið en við búum líka í samfélagi þar sem við erum að rísa upp úr tveggja ára mjög óvenjulegu tímabili.“

Þá hélt Halldóra Mogensen þingflokksmaður Pírata ræðu auk Guðmundar Hrafns Arngrímssonar formanns Leigjendasamtakanna. Fréttamaður Vísis var á staðnum og að hans sögn var mótmælendum nokkuð heitt í hamsi. Mikill fjöldi var saman kominn og slagorðið „Bjarna burt“ var kyrjað við góðar undirtektir mótmælenda.

Sömu skipuleggjendur hyggjast endurtaka leikinn og mótmæla á laugardögum næstu vikur.

Mótmælendur kyrjuðu „Bjarna burt“ hástöfum.Vísir/Einar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×