Enski boltinn

Þrenna Ronaldos bjargaði United gegn botnliðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cristiano Ronaldo skoraði öll þrjú mörk United í dag, en sigurmarkið kom beint úr aukaspyrnu.
Cristiano Ronaldo skoraði öll þrjú mörk United í dag, en sigurmarkið kom beint úr aukaspyrnu. Naomi Baker/Getty Images

Manchester United vann 3-2 sigur er liðið tók á móti botnliði Norwich í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Cristiano Ronaldo skoraði öll mörk United, en liðið var nálægt því að kasta sigrinum frá sér.

Ronaldo kom United yfir strax á sjöundu mínútu eftir stoðsendingu frá Anthony Elanga, og Portúgalinn var aftur á ferðinni þegar hann tvöfaldaði forystu liðsins eftir hálftíma leik þegar hann skallaði hornspyrnu Alex Telles í netið.

Gestirnir náðu þó að minnka muninn fyrir hlé þegar Kieran Dowell setti boltann í netið eftir stoðsendingu frá Teemu Pukki í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Staðan var því 2-1 þegar gengið var til búningsherbergja, en þeir Dowell og Pukki voru aftur á ferðinni snemma í síðri hálfleik. Í þetta skipti lagði Dowell upp fyrir Pukki með fallegri stungusendingu og staðan orðin jöfn þegar tæpar 40 mínútur voru eftir af leiknum.

Cristiano Ronaldo var þó ekki hrifinn af því að liðið tæki ekki öll stigin þrjú með sér úr leiknum og hann sá til þess að svo yrði ekki. Ronaldo skoraði þá beint úr aukaspyrnu þegar um stundarfjórðungur var til leiksloka og tryggði heimamönnum 3-2 sigur.

United situr nú í fimmta sæti deildarinnar með 54 stig eftir 32 leiki og heldur enn í vonina um sæti í Meistaradeildinni. Arsenal og Tottenham töpuðu bæði í dag og því má segja að þetta hafi verið fullkominn dagur hvað úrslit varðar fyrir United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×