Í myndbandinu hér að ofan sjást óeirðirnar. Ekki alvanaleg sjón að sjá í Svíþjóð; brennandi skóli, alelda lögreglubílar og stórir hópar óeirðarseggja sem kasta grjóti í yfirvaldið. Og þó, það hefur svo sem alveg komið áður til átaka á milli okkar og þeirra, segir sænski ríkislögreglustjórinn, en þetta er eitthvað allt annað.
Hvað veldur? Það er ekki fjarri lagi að eigna þessum hérna manni, hinum dansk-sænska Rasmusi Paladan, þann vafasama heiður að eiga upptökin að óeirðunum. Rasmus er leiðtogi róttæks dansks hægriflokks, Stram Kurs, sem hefur óbeit á innflytjendum.
Rasmus skipulagði fyrir nokkrum dögum fund í Linkoping, þar sem hann brenndi eintak af Kóraninum. Þetta vakti, eins og Rasmus vissi, ofsafengin viðbrögð hópa sem telja sig svívirta af þeim helgispjöllum.
Ekki mótmæli heldur frekar árás á lögreglu
Sú mynd sem Paladan vill kynda undir er að sögn stjórnmálafræðings sú að lögregla hafi ekki stjórn á glæpagengjum sem samanstanda af innflytjendum.

„Ég hugsa að hann Rasmus Paladan sé bara að kynda undir þessa mynd af Svíþjóð í erlendum fjölmiðlum; við sem búum hér sjáum aðra mynd,“ segir Gunnhildur Lily Magnúsdóttir, stjórnmálafræðingur. Hún er búsett í Svíþjóð og kennir í Malmö.
Þeir sem sækja að lögreglu eru að mati lögreglunnar gengjameðlimir sem sæta lagi, en þeir eru ekki að mótmæla pólitísku ástandi.
„Ég held í þessu tilviki vilji þeir raunar ekki neitt,“ segir Gunnhildur.
„Ef þetta eru, eins og lögreglan telur, gengjameðlimir, þá er þetta bara illska í garð lögreglunnar og yfirvalda. Þeir sem taka þátt í þessu eru í raun og veru ekki að mótmæla neinu sérstöku; þeir eru bara að mótmæla sinni stöðu í samfélaginu.“
Lögreglumál eru að sögn stjórnmálafræðingsins sannarlega á dagskrá komandi þingkosninga í Svíþjóð í haust.
„Auðvitað er fólk sjokkerað að lögreglan verði fyrir þessu aðkasti. Fólk túlkar þetta ólíkt eftir því í hvaða flokki fólki er; fylgismenn Svíþjóðardemókratanna kannski túlka þetta á annan hátt til dæmis, þar sem þetta eru hverfi fyrst og fremst með innflytjendum,“ segir Gunnhildur.