Skoðun

Stungu- og skot­á­rásir í mið­bænum. Er málið þá Taser-byssur fyrir lögguna? Er málið þá leyst?

Davíð Bergmann skrifar

Auðvitað ekki, það þarf nýja nálgun. Nýja leið til lausnar. Betrun í stað refsingar. Fræðslu í stað hegningar. Nýja dómaframkvæmd. Kannski ný lög? Eða nýja túlkun á tilgangi laganna. Það þarf að breyta hegningarlögunum.. Kannski, kannski ekki. Samkvæmt 56. og 57. Greinum almennra hegningarlaga er heimilt að fresta bæði ákæru og refsingu að vissum skilyrðum uppfylltum. Þessa heimild þarf að nýta betur og á markvissari hátt. Það þarf að breyta dómahefðinni. Það þarf að byggja upp og efla stofnanir, sem með fræðslu, alúð og uppbyggingu gætu „létt undir“ með refsivaldinu og stundum leyst það af hólmi.

Fyrir nokkrum árum kom ég á fót og stjórnaði hópastarfi undir nafninu „Hver ertu og hvert viltu fara?“ Ég fékk til liðs við mig lögregluna, slökkvilið, lækna, tryggingafélag, fyrrverandi fanga, landhelgisgæsluna og björgunarsveit. Hugmyndafræðin að baki starfinu var „learning by doing“ eins og gert er á götunni. Þetta virkaði og þetta hefði verið hægt að útfæra enn frekar og möguleikarnir eru endalausir eins og til dæmis í fjölsmiðjum landsins.

Ég er sannfærður um að svona hópastarf skili meiri árangri en að stilla ungum afbrotamönnum við skrifborð og rekja úr þeim garnirnar, tala yfir hausamótunum á þeim eða dæma þá til ákærufrestana eða skilorðsbundinna dóma án nokkra skilyrða svo ekki sé minnst á sektardóma sem ég held að skili minnstum árangri þegar ungir afbrotamenn eiga í hlut. Frekar ættum við að kenna þeim eitthvað gagnlegt og fræða þá um lífið.

En barnaverndarstofa drap þetta starf með þeim röksemdum að þetta væru ekki „viðurkenndar aðferðir“

„Olíuskipið“ er með laskaða skrúfu og það fer í hringi en það virðist enginn ætla að laga skrúfuna. Við verðum að skipta um stefnu í þessum málaflokki og það er ekki dýrt til lengri tíma litið og mun margborga sig.

Hvað þarf að gera? Auk sálfræðiþjónustu? Jú, það má vera með en það ekki eina svarið og langt frá því. Það þarf miklu meira en það. Það, að stilla þessum krökkum upp við skrifborð og spyrja „hvernig líður þér í dag“ Það er akkúrat það sem við erum búin að vera gera síðustu áratugi með litlum árangri. En, það eru sóknarfæri í þessum málaflokki, fullt af þeim og það er ekki bara til ein lausn heldur margar.

„Hver ertu, hvert viltu fara“

Hópastarfið sem ég var með fyrir drengi sem voru byrjaðir að feta sig inn á afbrotabraut. Til að útskýra um hvað hópastarfið snérist langar mig að koma með smá sýnishorn úr því starfi.

Hugmyndafræðin var fengin alls staðar að úr heiminum samt mest frá vini mínum Bjössa sem stofnaði Mótorsmiðjuna fyrst í lítilli kompu í útideildinni sem var staðsett á Tryggvagötu áður en aðrir komu að því starfi. Hann talaði um „mykjukenninguna“ eða „líkur sækir líkan heim“ Ég trúi enn að hún virki meira en 25 árum seinna.

Það sem ég ætlaði að koma drengjunum í skilning um í hópastarfinu var fyrst og fremst hvað það getur þýtt ef þeir enda uppi einir og það er á engan að treysta, fastir í fíkninni. Þá er ekki einu sinni hægt að treysta á sjálfan sig. Það gerði ég ekki með úreltum aðferðum, með því að tala þá í kaf á bak við skrifborð. Orðin fá allt aðra merkingu þegar búið var að setja viðkomandi í flotgalla og kasta honum í sjóinn og fara í burtu með bátinn. Ég leyfði þeim að veltast einum í öldum hafsins í smástund. Það eina sem þeir gátu gert var að liggja á bakinu og horfa til himins og sjá svartbakinn flögra í loftinu fyrir ofan sig á meðan aldan bar þá stjórnlaust eitthvað og þeir höfðu enga stjórn á neinu. Sem einmitt gerist þegar menn eru komnir á kaf í undirheimana og eru fastir í fíkn. Þá vilja sumir fljóta bara eitthvað með straumnum, stjórnlaust, það að einhver komi og dragi þá að landi er ekkert víst. Þegar komið var á bátnum aftur skriðu þeir fegnir um borð með alveg nýja lífsreynslu í farteskinu og tilfinningu. Þá urðu oft „stóru kallarnir“ algjörlega ósjálfsbjarga og litlir í sér og hræddir. Þarna var staður og stund þegar maður missir stjórn á lífinu. Búnir að komast aðeins í tæri við þann veruleika með þessari lífsreynslu og finna að maður hefur stundum enga stjórn á atburðum eða lífinu sér í lagi ekki í hinum harða undirheimi. Þegar við fórum í þetta verkefni passaði ég mig á því að fara ekki út í logni heldur þegar það blés og það var einhver öldugangur eins og lífið er í þessum heimi. Þetta er „learning by doing“ í hnotskurn.

Hvernig gat það verið slæmt fyrir þá að fá fræðslu frá slökkviliðinu? Sem setti á svið slys. Við klipptum bíl í sundur sem var á hvolfi. 50 kg dúkka var dregin út úr flakinu og hún endurlífguð undir tímapressu eins og raunveruleikinn er við svona aðstæður. Ástæða þess að ég valdi þetta verkefni var að sumir drengjanna höfðu stolið bílum og jafnvel keyrt undir áhrifum áfengis og vímuefna og fannst það ekkert tiltökumál. Töldu sig meira segja mikla töffara og kalda kalla að hafa gert það og voru að stæra sig af því. Sú töffara ímynd hvarf fljótt eftir að sjúkraflutningamennirnir voru búnir að opna augu þeirra fyrir því hvernig aðkoman getur verið að slíku slysi. Þetta var sett á svið eins raunverulega og unnt var, glerbrot og olía og gerviblóð út um allt. Eins fengu þeir almenna fræðslu um bruna. Þeir fengu að fara á reykkafaraæfingu með allar græjur á bakinu. Finna hvað það er mikilvægt að treysta félaga sínum í þannig aðstæðum og hvað það er að leggja líf sitt í hendurnar á annarri manneskju. Eins töluðu sjúkraflutningamennirnir um hvernig er að koma á vettvang sjálfsvígs eða þegar einhver „overdosaði“ á fíkniefnum.

“learning by doing”

Hvernig gat það verið skaðlegt fyrir þá að læra um höfuðhögg og fá fræðslu frá læknum sem eru sérfræðingar þegar kemur að því að meðhöndla fólk sem verður fyrir ofbeldi. Fá að vita hverjar eru afleiðingar ofbeldis í raun og veru og hvað þær geta verið langvarandi. Vekja þá til umhugsunar að eitt högg getur elt þá alla ævina bæði hvað varðar skaðabótakröfu og ekki síður samvisku og sakaskrá þeirra sem geymir atvikið ævilangt.. Bak við hvert fórnarlamb er net af fólki sem verðskuldar ekki að verða fórnarlömb aðstæðna sem þeir skapa með ofbeldi. Sýna þeim fram á að veruleikinn væri ekki eins og í bíómyndunum því stundum enda hlutirnir í alvörunni illa. Það er ekki alltaf „happy ending“

“learning by doing”

Hvernig gat það verið slæmt fyrir þá að læra um bótarétt hjá tryggingum og það getur verið þannig að sá bótaréttur fyrnist aldrei. Fara í veltubíl og upplifa það hvað maður er varnarlaus í þannig aðstæðum.

“learning by doing”

Hitta fyrrverandi fanga, sem afruglaði í þeim bullið um að það sé ekkert mál að sitja inni. Lýsti því hvernig það er í raun og veru að vera einn inni í klefa í myrkrinu sviptur frelsi og hafa enga stjórn á eigin lífi. Svo ekki sé talað um að setja fjölskyldu sína á ákveðinn félagslegan stall sem sé mjög erfitt að komast af. Þá færi lítið fyrir töffara ímyndinni og sumir grenjuðu í koddann þegar enginn sæi til yfir því hvernig væri komið fyrir þeim í lífinu. Fá ekki að sjá börnin sín, halda jól eða jafnvel að koma í afmæli og jarðarfarir hjá vinum og ættingjum. Hvernig þeir leggja fjölskyldur sínar í rúst og gera þær að fórnarlömbum aðstæðna, fyrir utan það að vera stimplaður glæpamaður.

“learning by doing”

Hvernig gat það verið skaðlegt læra um mála- og sakaskrá hjá lögreglunni. Hvað það þýðir að vera sakhæfur og ósakhæfur fá fræðslu um það hvernig dómstólar virka. Hvað er ákærufrestun, skilorðsbundnir dómar og óskilorðsbundnir. Það að hafa á sér dóm getur þýtt það að það er ekki hægt að fá hvaða vinnu sem er í framtíðinni og jafnvel að komast ekki í nám. Fara í allskonar verkefni eins og hlutverkaskipti við lögregluna þar sem þeir fengu tækifæri að leika lögreglu og lögreglumenn tóku að sér hlutverk hegðunarraskaðra unglinga og læra þannig hvað má og hvað má ekki.

“learning by doing”

Hitta björgunarsveit og landhelgisgæsluna. Víkka sjóndeildarhringinn, komast í snertingu við náttúruna og takast á við sjálfan sig og treysta á sína eigin getu. Síga fram af björgum í réttum öryggisbúnaði og með leiðsögn. Þar var hugsunin að treysta á sjálfan sig. Það var ekki hægt að skýla sér á bak við að hóp eða hópþrýstingi. Í því verkefni var eingöngu hægt að treysta á sjálfan sig og búnaðinn. Fyrir suma var þetta kannski þeirra stærsti sigur í lífinu fram að þessu. Það að fara fram af brúninni og gera það að sjálfdáðum en ekki undir hópþrýstingi. Þurfa bara að treysta á sjálfan sig, gat verið upphafið að styrkari sjálfsmynd. Við þessar aðstæður var rétti tíminn til að ræða hvað er vera leiðitamur og hvað það þýðir að standa með sjálfum sér. Eins var þetta mjög gott til að hrista hópnn saman. Yfirleitt er það sá sem er mest andfélagslegur sem þorir ekki að stíga fram af brúninni. En þá er hann líka búinn að missa stjórnina og auðveldara að stjórna hópnum með jákvæðum formerkjum.

“learning by doing”

Hvað var svona hættulegt við þetta?? Þetta er ekki kennt í félagsvísindadeildinni í Háskólanum. Það er enginn kafli um svona vinnu í neinni kennslubókinni þar. Við getum ekki bara týnt okkur í kvíða og þunglyndisumræðunni og að drengir geti ekki lesið sér til gagns. Verið og vera með einhvern sjúkdómsmerkimiða sem leiðir ungt fólk rakleiðis inn í tryggingakerfið. Það þarf að vinna með þeim í raunheimi. Hætta að tala um þau, tala í staðinn við þau, að gera eitthvað með þeim. Hugsa út fyrir rammann. Þora.

Höfundur er starfsmaður Fjölsmiðjunnar á Höfuðborgarsvæðinu.




Skoðun

Sjá meira


×