Frá þessu var greint í flöggun til Kauphallarinnar fyrr í dag en eignarhlutur SKEL í VÍS, sem nemur tæplega 128 milljónum hluta að nafnvirði, er metinn á um 2,44 milljarða króna miðað við núverandi hlutabréfaverð tryggingafélagsins.
Samhliða því að SKEL bætti við hlut sinn í VÍS í morgun, með kaupum á samtals 44 milljónum hluta að nafnvirði á genginu 18,1 króna á hlut, seldi fjárfestingafélagið öll bréf sín í Íslandsbanka sem það hafði keypt í útboði ríkissjóðs í lok síðasta mánaðar, samkvæmt heimildum Innherja. Samtals átti SKEL rúmlega 3,844 milljónir hluta í Íslandsbanka, sem félagið hafði keypt í útboðinu fyrir tæplega 450 milljónir, en seldi öll þau bréf í dag á genginu 125,5 krónur á hlut, eða fyrir samtals 482 milljónir króna.
Ekki liggur fyrir hverjir seldu bréfin sem SKEL keypti í VÍS í morgun en þeir fjárfestar fengu að hluta til greitt fyrir þau með bréfum fjárfestingafélagsins í Íslandsbanka.
Hlutabréfaverð VÍS hækkaði um 6,7 prósent í samtals 1,5 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag og við lokun markaða stóð gengi bréfa félagsins í 19 krónum á hlut.
Verulegar breytingar hafa orðið á starfsemi SKEL að undanförnu þar sem eignir hafa verið seldar, reksturinn stokkaður upp með stofnun nýrra dótturfélaga og tilgangi félagsins breytt þannig að megintilgangur þess verði fjárfestingastarfsemi. Samhliða því var nafni þess breytt úr Skeljungi í SKEL fjárfestingafélag. Þá hafa stjórnendur hætt við fyrri áform sín um afskráningu heldur er nú horft til þess að starfrækja fjárfestingafélag sem verður skráð á hlutabréfamarkað.
Fyrr í þessum mánuði var síðan tilkynnt um að SKEL hefði ráðið Ásger Helga Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóra Arion banka, í starf forstjóra fjárfestingafélagsins og hefur hann störf í sumar. Þá var Magnús Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri bankasviðs Kviku banka, fenginn til að taka við sem fjármálastjóri SKEL.
Þetta er fyrsta stóra fjárfesting SKEL eftir að megintilgangi félagsins var formlega breytt í fjárfestingafélag fyrr á þessu ári. Í krafti rúmlega 7,3 prósenta eignarhlutar er félagið núna fjórði stærsti hluthafinn á eftir LSR, Gildi og Lífeyrissjóði verslunarmanna. Fjárfestingafélagið Sjávarsýn, sem er í eigu Bjarna Ármannssonar, fer með 6,44 prósenta hlut.
Tryggingafélagið VÍS skilaði methagnaði á síðasta ári og yfir 40 prósenta arðsemi á eigið fé. Hagnaður félagsins nam tæplega 7,7 milljörðum króna og meira en fjórfaldaðist frá fyrra ári. Þar munaði mestu um góða afkomu af fjárfestingarrekstri VÍS en tekjur af þeirri starfsemi voru 8,3 milljarðar, sem jafngilti um 18,7 prósenta nafnávöxtun yfir árið, og jukust um 3 milljarða.
Frá áramótum hefur hlutabréfaverð VÍS lækkað um 7,3 prósent á sama tíma og hitt tryggingafélagið sem er skráð á markað, Sjóvá, hefur hækkað um 4,7 prósent.