Þetta kemur fram í nýjum tölum Seðlabanka Íslands um eignir verðbréfasjóða, sem birtust í morgun, en þetta er annar mánuðurinn í röð sem sýnir nettó útflæði í hlutabréfasjóðum. Sama var uppi með blandaða sjóði þar sem innlausnir fjárfesta voru um 1.100 milljónum krónum umfram fjárfestingar þeirra í þeim sjóðum. Er það í fyrsta sinn frá því í júní árið 2020 að það mælist útflæði úr blönduðum sjóðum innan eins mánaðar.
Samanlagt minnkuðu fjárfestar því við stöðu sína í hlutabréfasjóðum og blönduðum sjóðum um samanlagt 2.740 milljónir króna í síðasta mánuði. Svo mikið útflæði úr sjóðunum hefur ekki mælst frá því upphafi faraldursins í mars 2020.
Mikil óvissa einkenndi markaði fyrstu vikurnar eftir innrás Rússa í Úkraínu fimmtudaginn 24. febrúar síðastliðinn sem litaði mjög alla þróun hlutabréfaverðs. Lágpunktur ársins var 8. mars þegar Úrvalsvísitalan hafði lækkað um 16 prósent frá áramótum en síðan gengu þær lækkanir til baka að hluta og sé litið til marsmánaðar þá hækkaði vísitalan að lokum um 2,7 prósent – og um 5,4 prósent ef leiðrétt er fyrir arðgreiðslum margra félaga.
Eignir hlutabréfasjóða stækkuðu um liðlega fjóra milljarða í liðnum mánuði og voru samtals 156,3 milljarðar króna í lok mars. Eignir blönduðu sjóðanna jukust minna, eða aðeins um 500 milljónir, og stóðu í rúmlega 80 milljörðum króna.
Kaup almennings á hlutdeildarskírteinum í hlutabréfasjóðum hefur aukist talsvert að undanförnu og nema eignir heimila í þess konar sjóðum 51,8 milljörðum króna borið saman við tæplega 30 milljarða í árslok 2020. Almenningur fer því með um þriðjung af heildareignum hlutabréfasjóðanna.
Ef undan eru skildir síðustu tveir mánuðir hefur verið nær stöðugt innflæði hefur í bæði hlutabréfasjóði og blandaða sjóði í að verða um tvö ár og á árinu 2021 liðlega fjórfaldaðist það frá fyrra ári. Samanlagðar fjárfestingar í slíka sjóði voru um 58 milljarðar á liðnu ári.
Frá því í apríl árið 2020 hafa eignir hlutabréfasjóðanna vaxið um meira en 90 milljarða króna – úr 62 milljörðum í 156 milljarða – sem eykur um leið fjárfestingagetu sjóðanna sem því nemur. Eignir blandaðra sjóða hafa yfir sama tímabil stækkað um meira en 170 prósent.
Heildarviðskipti með hlutabréf námu rúmlega 183 milljarði króna í febrúar og jukust um 74 prósent frá sama tíma í fyrra. Markaðsvirði skráðra félaga stóð í 2.516 milljörðum króna í lok síðasta mánaðar.
Í byrjun þessa mánaðar tilkynnti síðan alþjóðlega vísitölufyrirtækið FTSE Russell það hefði ákveðið að færa íslenska hlutabréfamarkaðinn upp í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets) og tekur sú breyting gildi við opnun markaða 19. september á þessu ári. Uppærslan mun greiða fyrir innflæði „verulegs fjármagns“ inn í íslenskt efnahagslíf sem getur stutt við fjármögnunarmöguleika skráðra félaga, að sögn Kauphallarinnar.
Flokkun Íslands sem nýmarkaðsríki hjá FTSE Russell laðar tugi milljarða króna af erlendu fjármagni að íslenska hlutabréfamarkaðinum og eykur sýnileika markaðarins á erlendri grundu. Tímasetningin er hagstæð í ljósi þess að innflæði kemur á sama tíma og innlendir fjárfestar beina fjármagni, sem þeir hafa fengið útgreitt í formi arðs á síðustu vikum eða tekið frá fyrir hlutafjárútboð Íslandsbanka, aftur inn á markaðinn, eins og Innherji hefur áður fjallað um.