Fótbolti

Strasbourg kom til baka og bjargaði stigi gegn frönsku meisturunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kévin Gameiro skoraði fyrsta mark Strasbourg.
Kévin Gameiro skoraði fyrsta mark Strasbourg. Marcio Machado/Eurasia Sport Images/Getty Images

Strasbourg kom til baka eftir að hafa lent tveimur mörkum undir gegn nýkrýndum Frakklandsmeisturum Paris Saint-Germain í kvöld og náðu í mikilvægt stig í baráttunni um Evrópusæti. Lokatölur 3-3.

Heimamenn Strasbourg létu stjörnuprýtt lið PSG ekki slá sig út af laginu og þeir tóku forystuna strax á þriðju mínútu með marki frá Kevin Gameiro.

Kylian Mbappé jafnaði metin fyrir gestina frá París á 23. mínútu eftir stoðsendingu frá Neymar og staðan var því 1-1 í hálfleik.

Mbappé var svo aftur á ferðinni á 64. mínútu þegar hann lagði upp annað mark liðsins fyrir Achraf Hakimi og franski framherjinn skoraði annað mark sitt og þriðja mark PSG fjórum mínútum síðar.

Heimamenn minkuðu þó muninn þegar stundarfjórðungur var til leiksloka þegar Marco Veratti varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.

Það var svo varamaðurinn Anthony Caci sem jafnaði metin fyrir heimamenn í uppbótartíma og tryggði liðinu 3-3 jafntefli.

Eins og gefur að skilja trónir PSG á toppi deildarinnar með 79 stig þegar þrjár umferðir eru eftir. Liðið er búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og því mun staða þess ekki breytast. Strasbourg situr hins vegar í fimmta sæti deildarinnar með 57 stig og er í harðri baráttu um Evrópusæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×