Sólveig Birta söng California dreamin', lag bandarísku hljómsveitarinnar The mamas & the papas, líkt og hún gerði einnig í fyrstu áheyrnarprufu keppninnar, þegar hún sló rækilega í gegn og allir dómarar sneru sér við. Sumir lesendur gætu þekkt lagið undir nafninu Sveitapiltsins draumur en Hljómar snöruðu því yfir á íslensku á sínum tíma.
Sólveig sagðist í samtali við fréttastofu hafa ákveðið sex ára að taka þátt í keppninni. Hún var aðeins tólf ára þegar henni tókst ætlunarverk sitt en hún varð þrettán ára á sunnudaginn.
„Þegar ég var yngri héldum við Voice kids kvöld og ég sagði: Ég ætla einn daginn að vera þarna. Ég var búin að spurja mömmu í nokkur ár hvort ég mætti taka þátt og í ár var tíminn,“ sagði Sólveig í lok mars.
Nú er ljóst að Sólveig Birta gæti farið alla leið í keppninni og staðið uppi sem sigurvegari. Til þess þarf hún að hafa betur gegn átta öðrum krökkum í úrslitum.