Skoðun

Hættum allri jaðarsetningu

Anna Margrét Arnarsdóttir og Anna Sigrún Jóhönnudóttir skrifa

Í dag birtist frétt á Austurfrétt sem virkilega stakk okkur. Fyrirsögnin er „Tveir kynlausir einstaklingar á Austurlandi.“

Fyrst furðuðum við okkur á því hvers vegna þetta er yfir höfuð fréttaefni en gott og vel, mögulega er mikilvægt að tala um þennan fjölda á landsvísu til að sýna hversu mikilvæg lögin um kynrænt sjálfræði eru.

Hér erum við að tala um mjög jaðarsettan hóp sem upplifir oft mikla fordóma, fólk sem er jafnvel nýlega búið að átta sig á því sjálft að það má vera eins og það er. Því skiljum við ekki hvers vegna Austurfrétt telur nauðsynlegt að tiltaka þessar tvær manneskjur sem skilgreina sig og eru skráðar utan kynjatvíhyggjunar á öllu Austurlandi og þar með að útsetja þær fyrir frekari fordómum og jaðarsetningu.

Slík fréttamennska minnir óneitanlega á frétt sem birtist 9. febrúar árið 1977 sem fjallaði um svartan mann í Þistilfirði.

Hér þarf að byggja upp samfélag þar sem fordómar líðast ekki og það er ekki hægt ef við höldum áfram að taka einstaklinga eða ákveðna hópa út fyrir heildina.

Við þurfum að nota gagnrýna hugsun við frétta- og greinaskrif og spyrja okkur í hverju fréttin felst. Hvar hættir fréttamennskan og fordómafulla forvitnin byrjar?

Höfundar eru Anna Margrét Arnarsdóttir, oddviti VG í Fjarðabyggð og Anna Sigrún Jóhönnudóttir, sem skipar 3. sæti listans




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×