Tryggvi og félagar voru sterkari aðilinn í upphafi leiks gegn Bilbao og liðið leiddi með sex stigum að loknum fyrsta leikhluta. Gestirnir söxuðu á forskotið fyrir hálfleik, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 41-38, Zaragoza í vil.
Gestirnir í Bilbao voru svo beittari eftir hlé þar sem liðið náði fimm stiga forskoti fyrir lokaleikhlutann. Tryggvi og félagar náðu forystunni á ný stuttu fyrir leikslok, en gestirnir reyndust sterkari á lokakaflanum og unnu að lokum nauman tveggja stiga sigur, 82-80.
Tryggvi var stigahæsti maður Zaragoza með 15 stig, en hann tók einnig sex fráköst og gaf eina stoðsendingu. Zaragoza situr í 13. sæti deildarinnar með 22 stig.
Þá máttu Jón Axel Guðmundsson og félagar hans í Crailsheim Merlins þola tíu stiga tap í framlengdum leik gegn Ulm í Þýskalandi. Þegar flautað var til leiksloka var staðan jöfn, 89-89, og því þurfti að framlengja. Jón Axel og félagar skoruðu aðeins eitt stig í framlengingunni gegn ellefu stigum heimamanna og niðurstaðan varð því tíu stiga sigur Ulm, 100-90.