Fótbolti

David James dáist að innköstum Sveindísar: „Rory Delap væri stoltur“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar sigrinum á Barcelona ásamt Alexöndru Popp og Lynn Wilms.
Sveindís Jane Jónsdóttir fagnar sigrinum á Barcelona ásamt Alexöndru Popp og Lynn Wilms. getty/Martin Rose

Löng innköst Sveindísar Jane Jónsdóttur halda áfram að vekja mikla athygli. Meðal þeirra sem dáist að þeim er fyrrverandi markvörður enska landsliðsins.

David James, einn leikjahæsti markvörður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, fylgdist með seinni leik Wolfsburg og Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu á föstudaginn.

Wolfsburg vann leikinn 2-0 og varð þar með fyrsta liðið til að sigra Barcelona á tímabilinu. Sveindís lék allan leikinn fyrir Wolfsburg og langt innkast hennar skapaði fyrra mark leiksins. Sigurinn dugði þó skammt því Barcelona vann fyrri leikinn, 5-1, og einvígið, 5-3 samanlagt.

James var dolfallinn þegar hann sá Sveindísi grýta boltanum langt inn á vítateig Börsunga og deildi myndbandi af einu innkasti hennar á Twitter. 

„Vá! Jónsdóttir í Wolfsburg með innkast sem Rory Delap væri stoltur af,“ skrifaði James og vísaði þar til fyrrverandi leikmanns Stoke City sem var þekktur fyrir rosalega löng innköst sín. Þau voru lengi vel helsta sóknarvopn Stoke og lið vildu frekar gefa hornspyrnur en innköst við vítateig sinn gegn Stoke.

Sveindís hefur verið í byrjunarliði Wolfsburg í síðustu átta leikjum liðsins. Wolfsburg er á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar og komið í bikarúrslit.

Óhætt er að flokka hinn 51 árs James sem Íslandsvin en hann lék með ÍBV sumarið 2013, alls 23 leiki í deild, bikar og Evrópukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×