Í tilkynningu frá CCP segir að keppendur séu þegar farnir að setja lit sinn á miðborg Reykjavíkur. Hátíðin fer fram á föstudag og laugardag en fjölmargir hliðarviðburðir hátíðarinnar eru þegar farnir af stað í höfuðborginni.
„Fanfest er ekki bara hátíð fyrir spilara EVE Online heldur einnig nokkurskonar þjóðfundur. Dagskráin samanstendur m.a. af fyrirlestrum og pallborðsumræðum um efnahagsmál, sagnfræði og stjórnmál í EVE heiminum – auk viðburða á borð við Party at the Top of the World þar sem bandaríski plötusnúðurinn Z-Trip kemur fram og CCP Games Games þar sem keppt er í hinum ýmsu greinum sem ekki hafa hlotið náð Alþjóða Ólympíunefndarinnar. CCP kynnir ýmsar nýjungar og þróunarverkefni á opnunardegi hátíðarinnar auk þess sem stjarneðlisfræðingurinn og YouTube stjarnan Scott Manley heldur tölu sem ber yfirskriftina How EVE Made Me an Internet Rocket Scientist,“ segir í tilkynningunni.
CSM, lýðræðislega kjörið ráð EVE spilara, kemur hingað til lands í tengslum við hátíðarinnar til þinghalds.
Þetta er í fyrsta sinn í rúm fjögur ár sem Fanfest hátíðin fer fram í Reykjavík. Árið 2019 fór Fanfest á flakk um heiminn og fór m.a. fram í London, Las Vegas, Sydney og Pétursborg. Fyrirhuguð Fanfest hátíð hérlendis árið 2020 var frestað vegna heimsfaraldurs Covid-19.