Skoðun

Sofum á því!

Harpa Þorsteinsdóttir skrifar

Það var ráðstefna í Hörpu á mánudaginn síðastliðinn þar sem hver rokkstjarnan í þessum fræðum steig á svið á fætur annarri. Það er svo margt í okkar nærumhverfi sem við getum gert til þess að styðja við heilsueflingu og það er okkar hlutverk í stjórnum sveitarfélaganna að skapa aðstæður sem gera fólki kleift að hafa aukin áhrif á heilsu sína og bæta hana til framtíðar.

Ungmenni á Íslandi sofa styttra en í nágrannalöndunum og íslensk ungmenni fá hvergi nærri nægan svefn, það er staðreynd. Ég tel að það séu tækifæri til þess að styðja við heilbrigða framtíð barna og ungmenna með því að setja markmið um að bæta svefn ungmenna og fyrir því hef ég talað fyrir á liðnu kjörtímabili.

Góður svefn er öllum nauðsynlegur til að geta tekist á við viðfangsefni dagsins. Svefn hefur meðal annars jákvæð áhrif á ónæmiskerfið, á námsgetu og einbeitingu, hjálpar heilanum að festa upplýsingar í minni og er nauðsynlegur fyrir vöxt og þroska barna.

Það er áskorun fyrir skólana að taka þetta skref og sérstaklega ef að sveitarfélagið styður ekki vel við bakið á þeim því breytingin á sér ekki eingöngu stað innan skólanna. Það þarf að rýna vel hvernig skipulag sveitarfélagsins styður við og ég hef fulla trú á því að tækifærin séu til staðar í okkar góða samfélagi.

Við viljum fjárfesta í heilsunni með aðgerðum sem stuðla að bættum svefni. Við þurfum að þora að taka skrefið og seinka skólabyrjun á unglingastigi ásamt því að auka vægi fræðslu um mikilvægi svefns. Þannig getum við stutt við heilbrigða framtíð, með mótvægisaðgerð eins og að seinka skólabyrjun lengjum við svefn ungmenna og erum með því að sporna við þeim áhættuþáttum sem við erum að takast á við í auknum mæli í samfélaginu, t.d. streitu og kvíða.

Við í Garðabæjarlistanum viljum taka rétt skref svo þetta geti orðið að veruleika.

Setjum X við G,

Harpa Þorsteins.

Höfundur er í þriðja sæti á lista Garðabæjarlistans fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×