Innherji

Sögulegur vöxtur í óverðtryggðum lánum lífeyrissjóða til heimila

Hörður Ægisson skrifar
Ný óverðtryggð lán lífeyrissjóðanna til heimila námu yfir níu milljörðum í mars og hefur vöxturinn aldrei mælst svo mikill í einum mánuði.
Ný óverðtryggð lán lífeyrissjóðanna til heimila námu yfir níu milljörðum í mars og hefur vöxturinn aldrei mælst svo mikill í einum mánuði. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Stöðug ásókn er hjá heimilunum í að taka óverðtryggð íbúðalán hjá lífeyrissjóðunum og hefur vöxturinn margfaldast á undanförnum mánuðum eftir að sjóðirnir fóru að bjóða upp á umtalsvert betri kjör á slíkum lánum en viðskiptabankarnir.

Í mars á þessu ári námu ný óverðtryggð lán lífeyrissjóðanna til heimila, að frádregnum uppgreiðslum, samtals 9.149 milljónum króna og jukust þau um meira en þrjá milljarða frá fyrri mánuði. Er þetta mesta útlánaaukning í óverðtryggðum íbúðalánum sjóðanna sem mælst hefur í einum mánuði.

Þetta sýna nýjar tölur Seðlabankans um eignir lífeyrissjóðanna, sem birtust í morgun, en samhliða því að heimilin eru núna að horfa til þess að fjármagna sig á óverðtryggðum lánum þá héldu þau áfram að greiða upp verðtryggð lán hjá sjóðunum. Uppgreiðslur slíkra lán, sem hafa verið samfelldar í næstum tvö ár, jukust lítillega á milli mánaða og námu tæplega þremur milljörðum króna í mars. Frá því í júní 2020 hafa heimilin greitt upp verðtryggð lán hjá lífeyrissjóðunum fyrir um 98 milljarða króna.

Hrein ný sjóðsfélagalán lífeyrissjóðanna námu því samanlagt tæplega 6,2 milljörðum og er það mesti útlánavöxtur sjóðanna frá upphafi faraldursins í mars árið 2020. Á fyrstu þremur mánuðum ársins hafa sjóðirnir lánað fyrir um 11,4 milljarða til heimilanna, sem er alfarið drifið áfram af sókn í óverðtryggð lán þeirra, en til samanburðar voru sjóðsfélagalánin greidd upp fyrir 67 milljarða á öllu árinu 2021.

Eftir að Seðlabankinn fór að hækka vexti skarpt að undanförnu, nú síðast í gær úr 2,75 prósentum í 3,75 prósent, hafa heimilin farið að greiða upp óverðtryggð lán sín á breytilegum kjörum hjá bönkunum. Í febrúar og mars námu uppgreiðslur á slíkum lánum hjá viðskiptabönkunum samtals um 6 milljörðum.

Á sama tíma eru heimilin tekin að flykkjast til lífeyrissjóðanna en sumir af stærstu sjóðum landsins, eins og Gildi og Lífeyrissjóður verslunarmanna, bjóða í dag óverðtryggð lán á breytilegum kjörum til sjóðsfélaga sinna á rétt rúmlega 4 prósenta vöxtum – en það eru umtalsvert lægri vextir en fást hjá stóru bönkunum þremur á sambærilegum lánum.

Í viðtali við Innherja eftir vaxtaákvörðunarfund Seðlabankans í gær sagðist Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafa áhyggjur af því að samhliða hækkandi vöxtum væru heimilin að færa sig í auknum mæli úr nafnvaxtalánum yfir í verðtryggð lán í því skyni að minnka mánaðarlega greiðslubyrði sína.

„Viðskiptabankarnir hafa verið að lækka kjör sín á verðtryggðum íbúðalánum og þá hafa lífeyrissjóðirnir einnig verið að gera sig gildandi á nýjan leik á þessum markaði með því að undirbjóða bankanna að einhverju marki. Við höfum haft áhyggjur af þessari þróun,“ sagði Ásgeir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem seðlabankastjóri lætur slík ummæli falla en á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar fyrir rétt rúmum mánuði að hann hefði áhyggjur af því að hækkandi vextir og nýjar reglur um hámark greiðslubyrðar geti valdið því að heimilin færi sig aftur yfir í verðtryggð lán, á sama tíma og Seðlabankinn væri í raun að hafa hemil á þeim, og að lífeyrissjóðir verði á ný atkvæðamiklir á lánamarkaði. Bætti hann við að lífeyrissjóðirnir hefði yfirburði í því að fjármagna verðtryggð lán sökum þess að skuldir þeirra væru verðtryggðar á móti.

Fram kom í máli hans að það væri „engin launung á því að ég hefði helst viljað að lífeyrissjóðirnir væru ekki beinir þátttakendur á lánamarkaðinum eins og þeir eru í dag.“

Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, brást við þessum ummælum Ásgeirs og sagði við Innherja að það væru „ákveðin vonbrigði“ að seðlabankastjóri tæki undir þann málflutning forsvarsmanna bankanna sem getur leitt til þess að þátttakendum á samkeppnismarkaði fækki verulega.

Frá því í mars 2016 og þar til kórónuveirufaraldurinn skall á hér á landi í lok febrúar 2020 voru lífeyrissjóðirnir mjög umsvifamiklir í veitingu nýrra húsnæðislána og með álíka hlutdeild í veitingu nýrra lána og bankarnir. Hrein ný útlán lífeyrissjóðanna á því þriggja ára tímabili námu samtals 386 milljörðum króna. Má segja að í hverjum mánuði hafi hrein útlán frá lífeyrissjóðunum til íbúðakaupenda numið um það bil 5-10 milljörðum króna.

Þegar mest var í ársbyrjun 2020 voru sjóðsfélagalánin um 540 milljarðar króna, eða tæplega ellefu prósent af heildareignum lífeyrissjóðanna á þeim tíma, en nú eru lánin aðeins um 7,7 prósent af öllum eignum þeirra en þær hafa vaxið hratt á síðustu misserum og standa nú í 6.634 milljörðum króna.

Samkvæmt nýjum tölum Seðlabankans hækkuðu eignir lífeyrissjóðanna um tæplega 167 milljarða króna í marsmánuði.


Tengdar fréttir

Nýjar tölur sýna sögulega mikinn útlánavöxt í mars

Nýjar tölur Seðlabanka Íslands fyrir marsmánuð sýna að hrein ný útlán íslenskra innlánsstofnana hafa aldrei verið jafnmikil í einum mánuði frá því að Seðlabankinn byrjaði að halda utan um tölurnar í byrjun árs 2013. Mikill vöxtur var í útlánum til bæði fyrirtækja og heimila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×