Íslenski boltinn

Margrét Lára: Elín Metta í standi hefði skorað þrjú til fjögur í þessum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Metta Jensen virtist öskra „loksins“ þegar hún skoraði markið sitt í leiknum en áður hafði fjöldi færa farið forgörðum. Hér fagnar hún með liðsfélögum sínum.
Elín Metta Jensen virtist öskra „loksins“ þegar hún skoraði markið sitt í leiknum en áður hafði fjöldi færa farið forgörðum. Hér fagnar hún með liðsfélögum sínum. S2 Sport

Valskonur töpuðu fyrir Þór/KA á Akureyri í annarri umferð Bestu deildar kvenna og Bestu mörkin ræddu sérstaklega færanýtingu landsliðsframherjans Elínar Mettu Jensen.

Elín Metta Jensen skoraði reyndar mark Valsliðsins í leiknum en fékk fjölda færa í viðbót til að skora mun fleiri mörk.

Elín Metta er næstmarkahæsti leikmaður kvennaliðs Vals í efstu deild en sú markahæsta, Margrét Lára Viðarsdóttir, leyfði sér aðeins að gagnrýna leikform landsliðsframherjans í Bestu mörkunum.

„Elín Metta átti frábær færi og skorar reyndar mark,“ sagði Helena Ólafsdóttir, umsjónarkona Bestu markanna, og sýndi síðan eitthvað af færum Elínar Mettu í leiknum í Boganum.

„Mér finnst ég smá sjá að Elín Metta sé ekki alveg komin í sitt stand,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, sérfræðingur í Bestu mörkunum.

„Ef Elín Metta hefði náð að æfa í allan vetur og verið í toppstandi þá hefði hún skorað þrjú til fjögur mörk í þessum leik. Án efa,“ sagði Margrét Lára.

„Það er engu að síður sterkt fyrir hana að koma sér á blað strax í annarri umferð,“ sagði Mist Rúnarsdóttir, sérfræðingur í Bestu mörkunum.

Elín Metta skoraði sitt fyrsta mark í fyrra ekki fyrr en í fimmta leik en skoraði síðan ellefu mörk í síðustu tólf leikjunum.

Hér fyrir neðan má sjá umfjöllunina um færin hennar Elínar Mettu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×