Kathleen Folbigg er þekkt og alræmd sem versti raðmorðingi í sögu Ástralíu. Fyrir 19 árum, árið 2003, var hún dæmd til 30 ára fangelsisvistar fyrir að hafa banað fjórum barna sinna, öllum áður en þau náðu eins árs aldri. Hún hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu.
Saksóknari byggði á úreltu lögmáli
Börnin, tveir drengir og tvær stúlkur, fæddust á árabilinu 1989 til 1996. Í raun byggði saksóknari mál sitt á nokkrum samhengislausum slitrum úr dagbók Folbigg og svo hinu afar vafasama Meadow´s lögmáli sem hljóðar svo: „Eitt látið barn er harmleikur, tvö er grunsamlegt og þrjú látin börn er morð þar til annað kemur í ljós.“ Félagsráðgjafar og starfsmenn barnaverndar víða um heim studdust við þetta lögmál í ríkum mæli í upphafi aldarinnar.
Carola García Vinuesa er spænskur ónæmisfræðingur við Háskólann í Ástralíu. Hún hefur rannsakað mál Folbigg á síðustu árum og komist að þeirri niðurstöðu að börnin hafi látist vegna erfðasjúkdóms, þar sem stökkbreytingar verða á genamengi þeirra sem einnig finnst í móðurinni. Þessar stökkbreytingar geti valdið sterkum hjartsláttartruflunum sem geti leitt til dauða vöggubarna.
Telur eðlilega skýringu á öllum dauðsföllum
Carola García fullyrðir að öll börnin hafi látist af náttúrulegum orsökum og að móðirin eigi engan þátt í dauða þeirra.
Þetta kemur fram í nýlegu viðtali við fréttastofu Telecinco á Spáni við García.
Svo sterk þykja rökin og rannsóknir García að 90 virtir vísindamenn, hvaðanæva að úr heiminum, þar á meðal tveir Nóbelsverðlaunahafar, hafa skrifað undir bænaskjal um að Kathleen verði þegar í stað leyst úr haldi. Stjórnvöld í Nýja Suður-Wales í Ástralíu lofuðu að skila úrskurði sínum fyrir miðjan apríl. Enn bólar þó ekki á honum og telja fréttaskýrendur þá skýringu líklegasta að fylkiskosningar fara fram 21. maí og að ekki þyki hættandi á að úrskurða í jafn tilfinningaþrungnu máli og þessu svo skömmu fyrir kosningar.