Fótbolti

Baráttusætin í EM-hópnum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásta Eir Árnadóttir, Selma Sól Magnúsdóttir, Karitas Tómasdóttir, Hlín Eiríksdóttir og Natasha Anasi eru í baráttusætunum.
Ásta Eir Árnadóttir, Selma Sól Magnúsdóttir, Karitas Tómasdóttir, Hlín Eiríksdóttir og Natasha Anasi eru í baráttusætunum. vísir/getty/vilhelm

Í dag, 10. maí, eru tveir mánuðir þar til íslenska kvennalandsliðið mætir Belgíu í fyrsta leik sínum á Evrópumótinu á Englandi. En hvernig myndi hópur Íslands líta út á EM? Vísir kannaði málið.

Íslenski hópurinn nokkuð fastmótaður og baráttusætin ekki mörg, svo við grípum í kosningamál.

Miðað við 23 manna hópinn sem Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari valdi fyrir leikina gegn Hvíta-Rússlandi og Tékklandi í undankeppni HM í síðasta mánuði virðast tuttugu leikmenn vera nokkuð öruggir með sæti sitt í EM-hópnum.

Stærstu spurningarmerkin snúa að þriðja markverðinum, hvort Þorsteinn eigi að taka hreinræktaðan bakvörð eða enn einn miðvörðinn með og síðan eina miðju- og kantstöðu.

Blikinn Telma Ívarsdóttir hefur verið í hópnum að undanförnu sem þriðji markvörður og langlíklegast er að hún verði það áfram á EM. Þorsteinn valdi Auði Sveinbjörnsdóttur Scheving í hópinn í fyrra. Þá lék hún með ÍBV. Núna er hún aftur á móti varamarkvörður Vals, og búinn að glíma við meiðsli í vetur, og því afar erfitt að réttlæta að hún verði valin fram yfir Telmu sem lék sinn fyrsta landsleik á SheBelieves mótinu í febrúar.

Þorsteinn Halldórsson er á leið á sitt fyrsta stórmót með íslenska landsliðið.vísir/Hulda Margrét

Líklegast er að átta varnarmenn verði í EM-hópnum. Sjö ættu að vera öruggar með sæti sitt en baráttan um áttunda sætið stendur á milli Blikanna Ástu Eirar Árnadóttur og Natöshu Anasi. Ásta var kölluð inn í síðasta hóp vegna meiðsla Natöshu.

Ásta er hægri bakvörður og það gæti unnið með henni því í íslenska hópnum eru fáir „hreinræktaðir“ bakverðir. Raunar bara tveir, Elísa Viðarsdóttir og Hallbera Gísladóttir. Fjölmargir leikmenn hafa leyst stöðu hægri bakvarðar í íslenska liðinu undanfarin ár en engri tekist að gera stöðuna að sinni.

Natasha er úrvals leikmaður og færir íslenska liðinu enn meiri ógn í föstum leikatriðum en það er spurning hvort það sé ekki full mikið að vera með sex miðverði í 23 manna hópi.

Undir eðlilegum kringumstæðum væri Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir í hópnum en hún hefur verið frá undanfarna mánuði vegna höfuðmeiðsla og fátt bendir til þess að hún verði klár í tæka tíð fyrir EM. Hafrún Rakel Halldórsdóttir gerir einnig tilkall til þess að vera í hópnum, enda getur hún spilað sem bakvörður báðu megin. Hún ristarbrotnaði hins vegar í fyrsta leik Breiðabliks í Bestu deildinni og verður frá í 5-6 vikur.

Ellefu af þeim tólf miðju-, kant- og sóknarmönnum sem voru í síðasta landsliðshóp ættu að vera öruggar með sín sæti.

Selma Sól Magnúsdóttir hefur verið í hópnum að undanförnu en gæti átt á hættu að missa sætið sitt til Hlínar Eiríksdóttur. Sú síðarnefnda hefur glímt við meiðsli að undanförnu og ekki verið með landsliðinu síðan í fyrstu leikjum þess undir stjórn Þorsteins í apríl í fyrra.

Hlín er komin aftur á ferðina og hefur skorað í síðustu tveimur leikjum Piteå í sænsku úrvalsdeildinni, eitt í rétt mark og eitt í rangt mark.

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir og Karitas Tómasdóttir gera sér eflaust vonir um að komast í EM-hópinn og möguleikinn er alveg fyrir hendi. Hlín virðist þó vera líklegri en þær báðar. Íslenska liðið er með gnægð miðjumanna og Hlín býður upp á aðra kosti og eykur breiddina á köntunum.

Líklegur 23 manna hópur Íslands á EM

Markverðir:

  • Sandra Sigurðardóttir, Valur
  • Cecelía Rán Rúnarsdóttir, Bayern München
  • Telma Ívarsdóttir, Breiðablik

Varnarmenn:

  • Hallbera Gísladóttir, Kalmar
  • Glódís Perla Viggósdóttir, Bayern München
  • Sif Atladóttir, Selfoss
  • Elísa Viðarsdóttir, Valur
  • Ingibjörg Sigurðardóttir, Vålerenga
  • Guðrún Arnardóttir, Rosengård
  • Guðný Árnadóttir, AC Milan
  • Ásta Eir Árnadóttir, Breiðablik

Miðjumenn:

  • Sara Björk Gunnarsdóttir, Lyon
  • Dagný Brynjarsdóttir, West Ham
  • Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Orlando Pride
  • Agla María Albertsdóttir, Häcken
  • Alexandra Jóhannsdóttir, Frankfurt
  • Hlín Eiríksdóttir, Piteå
  • Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Bayern München
  • Amanda Andradóttir, Kristianstad

Sóknarmenn:

  • Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Brann
  • Elín Metta Jensen, Valur
  • Svava Rós Guðmundsdóttir, Brann
  • Sveindís Jane Jónsdóttir, Wolfsburg

Fyrsti leikur Íslands á EM er gegn Belgíu 10. júlí í Manchester. Íslenska liðið mætir Ítalíu í sömu borg 14. júlí. Fjórum dögum síðar eigast Ísland og Frakkland við í Rotherham í lokaumferð riðlakeppninnar.

Búast má við því að íslenska liðið leiki allavega einn vináttulandsleik áður en það fer út til Englands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×