Enski boltinn

Man. City staðfestir samkomulag sitt við Dortmund um Haaland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Haaland hefur gert góða hluti með Borussia Dortmund undanfarin ár.
Erling Haaland hefur gert góða hluti með Borussia Dortmund undanfarin ár. Getty/Roland Krivec

Erling Haaland verður leikmaður enska liðsins Manchester City frá og með 1. júlí. Ensku meistarnir staðfestu í dag það sem fjölmiðlar hafa haldið fram undanfarna daga.

Manchesster City mun kaupa upp samning Erling Haaland við þýska félagið Borussia Dortmund en uppsagnarákvæðið er sextíu milljónir evra. City er því að fá leikmanninn frekar ódýrt enda strákurinn enn bara 21 árs gamall.

Erling Haaland er einn eftirsóttasti leikmaður heims og fyrir löngu kominn í hóp bestu framherja heims.

City staðfestir samkomulag við Dortmund en segist eftir að ná samkomulagi við leikmanninn sjálfan sem er þó örugglega ekki í mikilli hættu.

Manchester City hefur verið að leita að framherja síðan að Sergio Aguero fór frá félaginu og fann hann nú í norska landsliðsframherjanum.

Erling Haaland hefur raðað inn mörkum hvert sem hann hefur farið nú síðast í tvö tímabil með Dortmund. Hann hefur skorað 85 mörk í 88 leikjum með þýska félaginu síðan hann kom þangað frá Red Bull Salzburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×