Þetta segir Mogens Mogensen, forstöðumaður hlutabréfasjóða hjá Íslandssjóðum, í viðtali við Innherja en helsti drifkraftur verðlækkana á mörkuðum hér á landi síðustu daga og vikur er að hans sögn ótti fjárfesta við þær lækkanir sem hafa verið á erlendum hlutabréfamörkuðum, einkum í Bandaríkjunum. Nasdaq hlutabréfavísitalan hefur, svo dæmi sé tekið, fallið um ríflega 25 prósent frá áramótum en hún er samsett að stórum hluta af vaxtarfyrirtækjum í tæknigeiranum.
„Hækkun vaxta hefur meiri áhrif á verðlagningu vaxtarfyrirtækja,“ útskýrir Mogens, enda sé „sjóðstreymi þeirra gjarnan mjög afturþungt og því eðlilegt að sjá meiri lækkanir á slíkum fyrirtækjum í því vaxtahækkunarferli sem nú er hafið í Bandaríkjunum. Íslenski hlutabréfamarkaðurinn er hins vegar töluvert öðruvísi samsettur þar sem við erum með fá eiginleg vaxtafyrirtæki í Kauphöll Íslands og er það einna helst Marel sem hægt er að flokka sem slíkt. Skráðu íslensku félögin eru heilt yfir virðisfyrirtæki sem skila sterku og stöðugu sjóðsstreymi og greiða arð til hluthafa fremur en að nýta til ytri vaxtar.”
Það er margt sem bendir til þess að veðköll hafi almennt ekki verið stór áhrifaþáttur í þeim lækkunum sem orðið hafa.
Hann bendir á að þegar erlendar virðisvísitölur séu skoðaðar þá hafi þær lækkað töluvert minna en Nasdaq á þessu ári, eða í kringum átta prósent. Vísitala aðallista Kauphallarinnar (OMXIPI) hefur á sama tíma fallið um liðlega tíu prósent frá áramótum en veltan í þeim lækkunum hér heima hefur verið frekar lítil ef frá er talin velta með stóru fyrirtækin eins og Marel og fjármálafyrirtækin. Það sé því ekki hægt að merkja, að sögn Mogens, að stórir innlendir fjárfestar hafi á þessum tíma verið að selja mikið af sinni hlutabréfaeign.
Aðspurður segir hann skuldsetningu á hlutabréfamarkaðnum vera hóflega. „Þetta má meðal annars sjá á eignarhluta bankanna í hinum ýmsu félögum sem endurspeglar að stærstu leyti framvirkar stöður viðskiptavina bankanna. Það er því margt sem bendir til þess að veðköll hafi almennt ekki verið stór áhrifaþáttur í þeim lækkunum sem orðið hafa.”
Verðbólga hefur aukist mikið um allan heim og mun meira en almennt var spáð. Hún var 1,2 prósent að meðaltali í helstu viðskiptalöndum Íslands á fyrsta fjórðungi í fyrra en var komin í 5,8 prósent á sama fjórðungi í ár, að því er fram kemur í nýjustu Peningamálum Seðlabankans. Mikil hækkun orkuverðs síðustu misseri vegur hvað þyngst í þeirri þróun. Verðbólguhorfurnar hafa versnað enn frekar að undanförnu, einkum vegna stríðsátakanna í Úkraínu sem hafa ýtt undir meiri hækkanir á hrávöruverði, og sama tíma hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lækkað spá sína um hagvöxt beggja vegna Atlantshafsins. Talið er að verðbólga í viðskiptalöndum Íslands verði að meðaltali 5,8 prósent á þessu ári, en á evrusvæðinu er útlit fyrir enn hærri verðbólgu.
Verðbólga á Íslandi mældist 7,2 prósent í apríl og samkvæmt nýrri spá Seðlabankans er gert ráð fyrir að verðbólgan muni mælast í kringum átta prósent á þriðja og fjórða ársfjórðungi – sem er um 2,8 prósentum meiri verðbólga var spáð í febrúar. Vextir bankans voru hækkaðir úr 2,75 prósentum í 3,75 prósent á vaxtaákvörðunarfundi síðasta miðvikudag.
Mogens segir versnandi verðbólguhorfur á heimsvísu vissulega vera áhyggjuefni og gefa tilefni til frekari vaxtahækkana. Því sé ljóst að vaxtastigið muni áfram þokast upp á við þrátt fyrir að það verði áfram tiltölulega lágt í sögulegu samhengi.
„Við erum hins vegar enn með töluvert neikvæða raunstýrivexti hér á landi og því er aðhaldsstig peningastefnunnar veikt. Ávöxtunarkrafa óverðtryggða ríkisskuldabréfa hefur farið hækkandi á undanförnum vikum vegna væntinga um vaxtahækkanir og er nú verið að verðleggja töluverðar vaxtahækkanir til viðbótar inn í ríkisbréfin.
Verðlagningin á markaðnum er heilt yfir nokkuð hófleg miðað við útgefnar rekstrarhorfur og verðlækkanir á markaðnum að undanförnu.
Fjárfestar reikna þannig með því að stýrivextir verði komnir yfir 5 prósent fyrir lok ársins. Ríkisbréf eru grunnurinn í verðlagningu á hlutabréfum og ef gert er ráð fyrir að stýrivextir hækki ekki vel yfir 5 prósent, með tilheyrandi frekari hækkun á ávöxtunarkröfu ríkisbréfa, tel ég að fjárfestar muni líta á þær lækkanir sem orðið hafa á innlenda hlutabréfamarkaðnum sem tækifæri,” útskýrir Mogens.
Hlutabréfamarkaðir, bæði hér heima og erlendis, hafa rétt lítillega úr kútnum í dag og í gær eftir miklar verðlækkanir að undanförnu. Þegar þetta er skrifað er Úrvalsvísitalan upp um liðlega 0,8 prósent – öll félögin á aðallista Kauphallarinnar hafa hækkað eða staðið í stað fyrir utan Sýn – en frá áramótum hefur hún hins vegar lækkað um 16,7 prósent. Þar munar miklu um fjórðungslækkun á hlutabréfaverði Marels á tímabilinu en félagið vigtar mest allra í vísitölunni.
Efnahagshorfurnar á Íslandi eru góðar, og nokkuð betri en í okkar helstu viðskiptalöndum, en flestir greinendur ásamt Seðlabankanum eru að spá hátt í fimm prósenta hagvexti á þessu ári. Viðmælendur á fjármálamarkaði, eins og kom fram í umfjöllun Innherja í gær, segja hins vegar að ef hagvaxtarhorfur versna enn frekar á heimsvísu sé ljóst að það muni hafa neikvæð áhrif á Ísland frá því sem nú er og horfurnar færast nær því sem er í þróuðum löndum, til dæmis Bandaríkjunum.
„Vaxtastig hefur hækkað hratt á skömmum tíma sem hefur leitt til þess að þrýstingur hefur myndast á verðlagningu hlutabréfa. Færa má rök fyrir því að markaðir hafi að mestu leiti endurstillt sig í samræmi við núverandi vaxtastig – og væntingum um frekari hækkanir – en óvissan sem nú stendur eftir er þá hvort hagvaxtarhorfur fari versnandi eða batnandi,“ sagði Davíð Stefánsson, sjóðstjóri hjá Akta við Innherja í gær.
Mogens segir að beinu áhrifin af stríðinu í Úkraínu á íslenska hagkerfið vera mjög takmörkuð þrátt fyrir að óbeinu áhrifin séu töluverð. Ferðaþjónustan sé þannig að koma sterkt til baka eftir faraldurinn og bókanir fyrirtækja í greininni fyrir sumarið líta mjög vel út. Þá sýna allar hagtölur að staða heimila og fyrirtækja er heilt yfir góð og bankakerfið stendur afar sterkt með verulegt umfram eigið fé.
„Meirihluti félaga í Kauphöllinni hefur nú birt uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung ársins 2022 og hafa þau í flestum tilvikum verið í takt við væntingar greinenda. Þá eru birtar afkomuhorfur fyrirtækjanna í Kauphöllinni fyrir árið 2022 frekar jákvæðar í flestum tilvikum þar sem gert er ráð fyrir ágætis rekstrarbata á milli ára. Það er því margt jákvætt í rekstrarumhverfi fyrirtækjanna þrátt fyrir að verðbólga og vaxtahækkanir muni hafa mismikil áhrif á rekstur þeirra. Verðlagningin á markaðnum er heilt yfir nokkuð hófleg miðað við útgefnar rekstrarhorfur og verðlækkanir á markaðnum að undanförnu,” að mati Mogens.
Aðrir viðmælendur á fjármálamarkaði taka í sama streng en nefna á móti að í þessu breytta umhverfi, sem einkennist af kólnandi hagkerfi og hækkandi vöxtum til að ná niður sögulega háum verðbólguvæntingum, þá verði það áskorun fyrir mörg félög í Kauphöllinni að sýna fram á mikinn afkomubata í rekstrinum á næstunni.
Mogens bendir á að útlit sé fyrir að flæðisáhrif fjármuna inn á hlutabréfamarkaðinn séu fremur jákvæð út þetta ár.
Það hefur reynst fjárfestum erfitt að ná sér í jákvæða raunávöxtun í núverandi vaxta- og verðbólguumhverfi og því er ekki ólíklegt að fjárfestar líti áfram til áhættumeiri eigna eins og hlutabréfa.
„Endurkaup félaganna á eigin bréfum og arðgreiðslur, aðallega frá fjármálafyrirtækjum, munu vega þungt en auk þess þá mun Síminn fá um 44 milljarða króna út úr sölunni á Mílu þegar hún verður frágengin, sem að hluta til verður líklega ráðstafað til hluthafa. Þá má einnig nefna að erlendir sjóðir hafa verið að fjárfesta í auknum mæli á innlenda markaðnum eftir að vísitölufyrirtækið FTSE Russell tók ákvörðun um að breyta flokkun á Íslandi úr því að vera vaxtarmarkaður (Frontier market) upp í nýmarkaðsríki í (Secondary Emerging market) sem opnar á mun stærra mengi erlendra fjárfesta sem setja íslenska markaðinn á radarinn í sínum fjárfestingum.”
Það sé því margt sem getur stutt við það að árið 2022 geti orðið „vel ásættanlegt“ á íslenska hlutabréfamarkaðnum enda þótt það kunni að vera sveiflukennt. „Það hefur reynst fjárfestum erfitt að ná sér í jákvæða raunávöxtun í núverandi vaxta- og verðbólguumhverfi og því er ekki ólíklegt að fjárfestar líti áfram til áhættumeiri eigna eins og hlutabréfa í von um ásættanlega raunávöxtun,” segir Mogens.