Innlent

Sam­veru­stund með stjörnu­spekingi breyttist í mar­tröð

Sunna Valgerðardóttir skrifar
Stjörnuspekingurinn fer yfir málin með vinkonuhópnum þar sem hann viðrar meðal annars þá skoðun sína að einhverfa sé áunnin og að inni í öllum sé síkópati sem geti framið fjöldamorð.
Stjörnuspekingurinn fer yfir málin með vinkonuhópnum þar sem hann viðrar meðal annars þá skoðun sína að einhverfa sé áunnin og að inni í öllum sé síkópati sem geti framið fjöldamorð. Skjáskot

Fyrir nokkrum mánuðum fóru nokkrar vinkonur til stjörnuspekings í persónulegan lestur. Hann auglýsti sig menntaðan í faginu og bauð þeim rúmlega þriggja stunda kvöldstund fyrir nokkra tugi þúsunda. Maðurinn sagðist meðal annars skilja Hitler og nasistana, sakaði vinkonurnar um að hafa skaðað börnin sín svo mikið að þau væru orðin einhverf og réðst persónulega á eina þeirra svo gróflega að hún brast í grát.

Þröskuldurinn gagnvart ofbeldi og allri misbeitingu valds er í dag mjög lágur, það er margt sem má ekki lengur. En það virðast gilda aðra reglur um það sem á sér stað í andlega heiminum, um hvað má og hvað má ekki. Neitun er oft túlkað sem ótti eða einhvers konar andleg hefting og að vera ekki í flæði. Stundum er sagt við fólk að það sé ekki nógu vakandi ef það gagnrýnir það sem því finnst óþægilegt eða er ekki til í að taka þátt í ákveðnum hlutum andlegra athafna. Kompás fjallaði um ofbeldi, gaslýsingu og lygar í andlega heiminum og þar sagði Anna Katrín sögu sína.

Anna Katrín hefur verið leitandi nær alla sína ævi. Hún hefur orðið fyrir fleiri áföllum en flest okkar og er sífellt að leita leiða til að vinna úr þeim og lina sársaukann. Hún hefur lent í slæmri reynslu oftar en einu sinni þegar kemur að andlegri heilun. Hún hefur áður stigið fram í fjölmiðlum og greint meðal annars frá því að hún hafi lent í alvarlegu kynferðisofbeldi sem barn og slitið á öll tengsl við foreldra sína. 

Heilari sem sagði að hún ætti að vera dáin

Sumar aðferðirnar sem hún hefur leitað í hafa reynst henni vel, aðrar hafa beinlínis skaðað hana. Hún nefnir þar dæmi um franska konu, heilara, sem hún heimsótti fyrir rúmu ári síðan. Í lok tímans heldur konan höndunum á henni og segir:

„Þú ert með svo mikinn sársauka í líkamanum að ég skil ekki af hverju þú ert á lífi. Þú hefðir átt að vera löngu látin eða búin að fremja sjálfsvíg.“

Skiljanlega fékk Anna Katrín mikið sjokk við að heyra konuna tala svona.

„Ég fór bara út og grét úti í bíl. Þetta hefði getað verið mjög hættulegt ef ég hefði verið með sjálfsvígshugsanir eða mjög þunglynd. Ef ég hefði ekki verið komin svona langt í mínu bataferli, þá hefði þetta getað endað illa,“ segir Anna Katrín. „Svo þorir maður ekki að að segja frá svona því að fara til heilara er ekki viðurkennt eins og að fara til sálfræðings. Þannig að ef ég hefði lent í þessu hjá sálfræðingi, þá gæti ég tilkynnt það. En ég get ekki tilkynnt þetta í þessu tilviki.“

Gortaði sig af fjölda fullnæginga á ofskynjunarefnum

Fyrir nokkrum mánuðum fór Anna Katrín svo, ásamt vinkonum sínum, til stjörnuspekingsins Gísla Gunnarssonar Bachmann. Hún hafði kynnst honum á námskeiði í sjamanisma fyrir nokkrum árum og kannaðist við hann. Svo leit vefsíðan hans vel út.

„Þetta átti bara að verða skemmtileg stund, að fá stjörnuspeking til að lesa fyrir okkur. En það varð ekki svo.“

Í rúma þrjá klukkutíma fór spekingurinn um víðan völl og deildi meðal annars með þeim reynslu sinni af ofskynjunarefnum sem hann hafði prófað á Tælandi fyrir nokkrum árum. Samkoman var tekin upp á myndband sem hann lét þær fá eftir á, ekki ósvipað og miðlar gera eftir tíma með þeim.

„Þar fór ég í gegn um ég veit ekki hvað mörg fyrri líf. Þar var ég algjörlega full blown fokking síkópati í mörgum þeirra. Algjör siðblinda bara. Nauðgaði, drap. Þetta var svo erfitt tripp. Og meira að segja í einu lífinu var ég einhver tantra-snillingur. Algjörlega fokking siðblindur. Ég spilaði á kynorkuna bara eins og hljóðfæri,“ segir hann. Svo lýsir hann því hvernig hann lék sér og spilaði á konuna sína „eins og fokking hljóðfæri“ svo hún hafi fengið „30 fullnægingar í þessar fimm mínútur.“ 

„Og ég bara: Hvað er að fokking gerast hérna? Svo dettur trippið út og ég hef aldrei gert þetta aftur. I wish. I wish skilurðu.“

Tengdi við barnadráp nasistanna

Síðan kom löng ræða um sátt hans við það að vera „algjör full blown fokking síkópati“ eins og hann orðar það.

„Ég dæmi ekki Hitler. Ég dæmi ekki nasistana fyrir að drepa börn og allt þetta fokk. Því ef mér væri ýtt nógu fokking langt. Ég er alveg fær um að gera það í dag. En ég veit það í þessu lífi að it’s not what I’m going to do. Ég veit það bara.“ 

„Það er síkópati inní mér. En hann er ekkert við stjórvölinn, skilurðu. Hann bara situr og horfir skilurðu.“
Vísir/Arnar

Grætir hana en heldur áfram

„Það endaði þannig að maðurinn er að lesa fyrir mig, og hann hreint út segir mér að ég sé hrokafull. Ég sé narsisissti og ég sé síkópati og ég verði að viðurkenna það fyrir sjálfri mér,“ segir Anna Katrín. 

„Þú ert fullblown fokking narsissisti. Elskan mín, þú ert svo hrokafull og upptekin af sjálfri þér. En ég meina þetta í bestu mögulegu orku og ég get. Af því að ef þú lokar á það þá lokarðu á litrófið.“ 

„Þú þarft að horfast í augu við það sem þú óttast mest. Það er að þú ert narsisissti. Það er að þú ert alveg eins og mamma þín og pabbi þinn. Þau eru í þér. Þetta er innra með þér og þú þarft bara að hleypa þessum ótta út. Hleypa þessum tilfinningum út. Það er allt í lagi,“ sagði stjörnuspekingurinn.

„Ég hef lent í narsisistum. Ég hef lent í síkópata. Og þetta eru mín dýpstu sár, sem ég er ennþá að græða. Og þegar ég fæ þetta þá bara brotna ég niður og fer að gráta. Og hann hættir ekki þá,“ segir Anna Katrín.

„Mamma þín og pabbi elska þig svo mikið sem sálir að þau voru tilbúin til að fara í gegn um ógeðið og þurfa að skemma þig og meiða þig og særa þig svo mikið og þú þarft að taka allt sem þú mögulega getur til að takast á við þetta. Og það sama á við um þig. Og ég held bara ykkur allar sko,“ segir hann.

Spyr hvort þær hafi gert börnin einhverf

Hann heldur áfram að segja Önnu Katrínu frá því að hann sé að fá skilaboð frá æðri verum um að það sé ákveðin ástæða fyrir því að foreldrar hennar hafi ákveðið að láta hana ganga í gegn um helvíti og hún þurfi að skilja það, annars verði hún aldrei hamingjusöm.

„Ef þið ætlið að þora að fara í tilfinningavinnu, þá þurfiði að þora að líta inn í worst case scenario. Hvað þið hafið gert. Eruði búnar að skemma börnin ykkar? Eruði bara rækilega búnar að fokka þeim upp? Af því að þið eruð svo fokkt opp sjálfar? Þið þurfið að skoða þetta. Þið þurfið að fara þangað.“ 

„Vá, enginn smá fokking lærdómur að ég þurfi að lifa með því að ég fokkaði barninu mínu svo upp að hann er einhverfur, eða eitthvað slíkt. Ég trúi því að einhverfa sé ekki bara meðfædd heldur er hún áunnin.“

Sendi fimm mínútna langa hrútskýringu eftir á

Þrátt fyrir alla sjálfsvinnuna sem Anna Katrín hefur unnið, tók þessi samkoma mjög á hana.

„Hann náði til mín. Af því að ég bara einhvern veginn treysti honum. Þetta er stórhættulegt. Þetta hefði getað endað mjög illa fyrir mig. Það sýnir líka hversu alvarlega maður þarf að hafa varnirnar uppi og sjá rauðu flöggin,“ segir hún. „Eftir þetta reynir hann að hafa samband við mig og sendir mér hljóðskilaboð. Og ég var að vona að hann væri að draga úr þessu. En í raun var þetta bara eintóm hrútskýring þar sem hann er bara að útskýra þetta ennþá betur fyrir mér. Ef ég skildi þetta ekki nægilega vel.“

Eftirfarandi er hluti af nokkurra mínútna löngum hljóðskilaboðum sem hann sendi Önnu Katrínu þar sem hann hrútskýrði upplifun hennar af lestrinum:

„Allt sem við erum tæknilega séð fær um að gera, vegna þess að við erum mennsk, sem við getum fengið að sjá okkar skærasta ljós því við þorum að horfast í augu við okkar myrkasta myrkur. Þannig að endilega láttu mig vita ef þú skildir þetta betur núna heldur en í dæminu því ef þú skildir þetta ekki nægilega vel í dæminu, þá þarf ég að passa mig að hleypa ekki svona bombum út.“

Kompás hefur boðið Gísla að koma í viðtal, en hann þáði ekki boðið. 


Tengdar fréttir

Ofbeldi og illska í skjóli andlegrar vinnu

Kompás ræddi við fjölda fólks sem hefur orðið fyrir ofbeldi, svikum og misbeitingu í andlega heiminum við það eitt að reyna að leita sér aðstoðar í góðri trú.

Heimilisofbeldi, dulbúnar orgíur og stjórnlaus tripp í nafni andlegrar vinnu

Eitraðir leiðbeinendur og vanhæfir kennarar skilja margir eftir sig slóð af sköðuðu fólki sem leitaði til þeirra í góðri trú. Ekkert eftirlit er með starfseminni og getur í raun hver sem er titlað sig leiðbeinanda. Töluvert er um að andleg vinna sé sett í búning einhvers konar heilunar, heimilisofbeldi getur verið kallað skuggavinna, og ef fólk er ekki til í allt þá er það ekki nógu vakandi. 

Hugvíkkandi lyf eru flugbeitt verkfæri

Í Kompás þætti gærkvöldsins var fjallað um það ofbeldi sem þrífst innan andlega heimsins svokallaða hér á landi, nánar tiltekið þeim kima hans sem hefur með shamanisma og hugvíkkandi lyf að gera.

„Ég hef hvergi getað leitað réttlætis eða úrvinnslu“

Ekkert eftirlit er með óhefðbundnum heilunar- og sjálfshjálparaðferðum og lítið gert nema þolendur verði fyrir alvarlegum lögbrotum. Kona sem hefur ítrekað orðið fyrir ofbeldi og misbeitingu í andlega heiminum kallar eftir vettvangi til að tilkynna brot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×