Skoðun

Óbreytt fúsk í Kópavogi

Þórarinn Ævarsson skrifar

Það er sagt að sagan endurtaki sig, og fyrir íbúa Kópavogs, þá eru það því miður orð að sönnu.

Kópavogur er þéttbýlasta bæjarfélag landsins. Frá 1990 hefur íbúafjölgun þar verið miklu meiri en í nokkru öðru sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu. Sú þróun hefur því miður ekki verið sársaukalaus fyrir hinn almenna bæjarbúa.

Síðustu áratugir hafa einkennst af stríði bæjaryfirvalda við íbúa einstakra hverfa. Yfirvöldin hafa oftar en ekki farið fram með offorsi, sniðgengið lögbundið samráð og skellt skollaeyrum við lögmætum athugasemdum og áhyggjum íbúa.

Nægir þar að nefna gríðarlega uppbyggingu á Nónhæð þar sem áður skilgreindu útivistarsvæði var fórnað fyrir risastór fjölbýlishús sunnan við lágreista byggð, með tilheyrandi skuggavarpi og augljósri skerðingu lífsgæða þeirra sem fyrir eru.

Íbúar Kársness þurftu á sínum tíma að efna til fjöldamótmæla til að hnekkja áætlun yfirvalda um stórskipahöfn með tilheyrandi þungaumferð, slysahættu og mengun. Háhýsabyggðin við Lund olli miklum deilum sem og uppbyggingin við Kópavogstún.

Íbúar Linda- og Salahverfis þurftu að mynda samtök á sínum tíma, sem og íbúar Vatnsenda, sem nýverið tóku sig saman vegna fyrirhugaðra vegaframkvæmda.

Þá rafa risið kröftug samtök íbúa í Hamraborg og Fannborg, auk þess sem nágrannar þeirra við svokallaðan Traðarreit eystri fyllast skelfingu yfir stórkarlalegum áformum, þar sem 8 einbýlishús eru rifin og á rústum þeirra rísa 180 íbúðir með margföldum íbúafjölda.

Ástæðan fyrir þessum mótmælum er sjaldnast sú að fólk sé á móti uppbyggingu eða hafi athugasemdir við að íbúðabyggð rísi þar sem áður var atvinnustarfsemi. Vandamálið er að öll þessi þétting, sem á sér stað um allan bæ fer fram án þess að endubætur eigi sér stað á innviðum eins og gatnakerfi, almenningssamgöngum, þjónustu eða öðru. Þetta kemur svo fram sem viðbót ofan á þegar sprungið samgöngukerfi.

Einhverra hluta vegna virðist sem minnihlutinn í bæjarstjórn sé bara þokkalega sáttur við allar þessar framkvæmdir. Í það minnsta heyrast ekki mikil mótmæli eða varnarorð úr þeim herbúðum og er þá fokið í flest skjól fyrir áhyggjufulla íbúa.

Til að mynda mótvægi við þetta allt saman hafa hópar óánægðra bæjarbúa tekið sig saman og myndað regnhlífarsamtökin Vinir Kópavogs. Vinir Kópavogs eru hreyfing íbúa, sem skilgreinir sig hvorki til vinstri eða hægri á ás hefðbundinna stjórnmála, heldur samanstendur af fólki sem hefur brennandi áhuga á að bæta bæjarfélagið okkar og skila því betra til næstu kynslóðar.

Flest okkar eru gamlir Kópavogsbúar sem ofbýður ofríkið, tillitsleysið við íbúa og sniðgangan við skipulagslög. Okkur hreinlega svíður að horfa uppá græðgina og metnaðarleysið sem virðist því miður vera einkennandi. Stór hluti strandlengjunnar hefur verið eyðilagður með uppfyllingum, grænum svæðum fækkar og er langt fyrir flesta íbúa í þau. Þá vitum við að þetta á eftir að versna verulega, því stór hluti byggðar sem nú þegar er samþykkt er enn ekki risinn.

Vinum Kópavogs finnst Kópavogur, sem er nánast búinn með allt byggingarland, hafi nú þegar lagt sitt af mörkum. Önnur sveitafélög, sem eiga nægt byggingarland, verði að taka upp slakann enda eru bæjarbúar nú þegar tæplega 40.000 og verða 44.000 þegar samþykktri uppbyggingu lýkur. Við teljum það alls ekkert kappsmál að bæjarbúum fjögi umfram þetta. Við viljum að hlúð sé að eldri hverfum bæjarins eins og þeim nýju. Við leggjum áherslu á að allir þjóðfélags- og tekjuhópar sjái sér fært um að setjast að í bæjarfélaginu. Því miður er staðreyndin sú að stór hluti nýrra hverfa virðist sérhannaður fyrir þá sem eru hættir eða við það að hætta á vinnumarkaði.

Þeir sem samþykktu þessi ósköp verða aldrei kallaðir til ábyrgðar fyrir skipulag sem skilar óþörfum umferðartöfum, fjölgun slysa, hávaðamengun yfir samþykktum mörkum, svifryksmengun yfir samþykktum mörkum og einfaldlega verra mannlífi.

Við fáum ekki breytt því sem búið er, en við getum haft áhrif á framtíðina.

Vinir Kópavogs vilja aukið samráð við íbúa. Okkar fyrsta loforð ef við tökum við lyklunum að skrifstofu bæjarstjóra er að byrja á nýju aðalskipulagi fyrir Kópavog. Við viljum ræða mismunandi kosti við íbúa og hlusta á hverjar áherslur þeirra eru, m.a. um hvernig þéttingar- og þróunarreitir eiga að vera. Við viljum samráð sem grundvöll að sátt innan bæjarfélagsins. Það getur einfaldlega ekki talist eðlilegt ástand að bæjaryfirvöld, sem eiga í raun að þjóna okkur íbúum, séu í stríði við okkur og vinni leynt og ljóst gegn okkur. Við lofum því að fylgja skipulagslögum í hvívetna og eiga lögbundið samráð við alla hagsmunaaðila.

Höfundur skipar fjórða sæti á lista Vina Kópavogs.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×