Keflavík vann öruggan 3-0 sigur er liðið tók á móti Leikni í Bestu-deild karla í fótbolta í kvöld. Bæði lið voru í leit að sínum fyrsta sigri fyrir leikinn, en bið Keflvíkinga er nú á enda.
Keflavík komst yfir strax á 5. mínútu leiksins. Eftir hornspyrnu vinstra megin berst boltinn til Sindra Þórs sem á fyrirgjöf inn í vítateig Leiknis. Viktor Freyr, markvörður Leiknis, kemur út til að grípa en lendir á samherja sínum Bjarka Aðalsteinssyni. Viktor missti boltann sem dettur fyrir Adam Ægi Pálsson sem setur boltann auðveldlega í autt net Leiknis.
Á 13. mínútu á Róbert Hauksson, leikmaður Leiknis, skot í þverslánna á marki Keflavíkur. Færið kemur eftir flottan undirbúning Mikkel Jakobsen á hægri væng en Jakobsen var sennilega mesta ógn Leiknis í kvöld.
Veðuraðstöður spiluðu hlutverk í leiknum í kvöld en á 26. mínútu var augljós sönnun þess þegar Adam Ægir tekur hornspyrnu og spyrnir boltanum upp í vindinn sem endar á því að boltinn flýgur í stöngina fjær en gestirnir ná að bjarga á síðustu stundu.
Keflavík var svo nálægt því að tvöfalda forystu sína á 43. mínútu þegar Joey Gibbs fær boltann inn í teig og á skot sem Viktor ver frábærlega í marki Leiknis. Keflavík fór því aðeins með eins marks forystu inn í hálfleik.
Síðari hálfleikurinn er ekki nema sex mínútna gamall þegar Patrik Johannesen skorar annað mark Keflavíkur eftir hræðilegan vandræðagang í vörn Leiknis. Brynjar Hlöðversson reynir í tvígang að hreinsa boltann í burtu, fyrri hreinsunin fer beint í fætur Adams Ægis sem nær þó ekki að gera sér mat úr gjöf Brynjars og gefur boltann í raun beint aftur á Brynjar. Í seinni tilraun Brynjars til að hreinsa fer boltinn í lappir á Patrik Johannesen sem gerir engin mistök. Skot Patriks er þó beint á Viktor í markinu en einhvern veginn fer knötturinn í netið. Leiknis mönnum til varnar þá var sólin komin ansi lágt á lofti á þessum tímapunkti kvöldsins og var beint í auglínu öftustu manna í liði gestanna.
Leiknis-menn reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn en inn vildi boltinn ekki. Á 57. mínútu á Henrik Berger, leikmaður Leiknis, skot í þverslána í annað skipti í leiknum. Eftir tilraun Berger tóku baráttuglaðir Keflvíkingar öll völd á leiknum.
Tíu mínútum eftir sláarskot Berger á Viktor enn eina frábæru markvörsluna eftir skot Patrik og aftur þremur mínútum síðar er Viktor aftur vel á verði þegar hann ver skot Adams Ægis.
Leikurinn var áfram einstefna á mark Leiknis en á 80. mínútu er varamaðurinn Helgi Þór kominn í dauðafæri inn á vítateig Leiknis en aftur var það Viktor sem kom gestunum til bjargar þegar Helgi reyndi að setja boltann undir markvörðinn unga. Helgi gerði þó engin mistök rúmri mínútu síðar þegar hann fær frábæra fyrirgjöf frá Patrik og nær að pota boltanum fram hjá Viktori, í slána og inn. Öruggur 3-0 sigur Keflavíkur staðreynd.
Afhverju vann Keflavík?
Heimamenn nýttu þau færu sem buðust þeim og voru með yfirhöndina allt frá upphafi leiks. Baráttuviljinn var til staðar hjá Keflavík en hann vantaði hjá Leikni.
Hverjir stóðu upp úr?
Patrik Johannessen skoraði eitt og lagði upp annað og var alltaf hættulegur með boltann í löppunum. Adam Ægir var líka síógnandi í sóknarlínu Keflavíkur.
Hjá Leikni var Mikkel Jakobsen sá sem skapaði mest. Viktor Freyr hafði nóg að gera í markinu og varði oft vel þó hann hefði getað gert betur í mörkunum sem Leiknir fékk á sig. Kaflaskiptur leikur hjá Viktori.
Hvað gerist næst?
Keflavík fer í heimsókn til KR í vesturbæ á mánudaginn á meðan Leiknir á mikilvægan leik framundan gegn Fram sama dag.
„Okkur hefur gengið vel að skora mörk“
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, var ánægður eftir fyrsta sigur Keflavíkur í Bestu-deildinni.
„Það er frábært að ná fyrsta sigrinum. Það er náttúrlega allt annað að vinna í fótbolta. Strákarnir eru núna allir mjög ánægðir sem og ég. Flottur leikur hjá okkur þar sem við skorum þrjú mörk og náum að halda hreinu. Ég var 1-2 sinnum í viðbót búinn að sjá boltann inni sem varð ekki en Leiknismenn náðu líka tveimur skotum í slánna. Heilt yfir fannst mér við eiga sigurinn skilið,“ sagði Sigurður Ragnar í viðtali við Vísi eftir leik.
„Mér fannst við spila ótrúlega vel og mér fannst við ótrúlega skynsamir. Vindurinn stóð svolítið á annað markið og leikurinn þróaðist vel fyrir okkur að ná að fá mörk og að halda markinu hreinu. Ég er líka ánægður með þá sem komu inn á, Helgi Þór kom inn með mikla vinnslu og skoraði mark. Við söknuðum bæði Magga og Frans í leiknum í kvöld en það kemur maður í manns stað.“
Næsti leikur Keflavíkur er á útivelli gegn KR-ingum þar sem Keflvíkingar mæta fullir sjálfstrausts.
„Okkur hefur gengið vel að skora mörk og erum núna komnir með 10 mörk. Við erum búnir að spila vel núna þrjá leiki í röð og vonandi getum við farið á hörku erfiðan útivöll gegn góðu liði og sýnt góða frammistöðu,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur.
„Svekkjandi því við fáum mörg mjög fín færi“
Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis, sagði í viðtali fyrir leik hafa hlegið af því alla vikuna að Eiður Aron Sigurbjörnsson, leikmaður ÍBV, væri markahæsti leikmaður Leiknis eftir fjórar umferðir af tímabilinu. Aðspurður af því sama aftur eftir leik sagðist Sigurður ekki vera lengur skemmt yfir þessari staðreynd. Leiknir hefur bara skorað eitt mark í fyrstu fimm leikjum tímabilsins.
„Mislægir fætur inn í boxi. Það er kannski komið inn í hausinn á mönnum núna þessi umræða um markaskorunina. Þetta var svekkjandi því við fáum mörg mjög fín færi,“ svaraði Sigurður þegar leitast var eftir því hvað væri að klikka hjá Leikni fyrir framan markið.
„Við fengum fleiri færi í leiknum í kvöld en við höfum fengið í síðustu leikjum. Mér fannst skrítið hvað við vorum mikið undir í seinni boltum, þeir dældu boltanum fram og voru með löng innköst. Þeim tókst að drepa leikinn og við spiluðum þetta svolítið upp í hendurnar á þeim en með því að tapa 90% af skallaboltum og seinni boltum, þá fer þetta svona.“
Fyrsta mark Keflavíkur kom eftir klaufagang í öftustu línu Leiknis þar sem tveir samherjar lenda saman. Sigurður hefur áhyggjur af því hvað liðið tapaði mörgum návígum í kvöld.
„Þeir skullu saman Viktor og Bjarki. Þetta var óheppilegt þar sem við missum Bjarka út af og fáum mark í andlitið. Það riðlar aðeins til hjá okkur í skipulaginu en mér fannst þeir þá alveg taka leikinn yfir. Svo var ég ósáttur við það hvernig við erum að takast á við öll þessi návígi sem við töpuðum í dag. Það er mikið áhyggjuefni,“ sagði Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknis, að lokum.