Enski boltinn

Ný treyja New­cast­le eins og landslið­s­treyja Sáda

Sindri Sverrisson skrifar
Salem Aldawsari á ferðinni í landsleik með Sádi-Arabíu. Eins og sjá má er nýja varatreyja Newcastle afar lík landsliðstreyjunni.
Salem Aldawsari á ferðinni í landsleik með Sádi-Arabíu. Eins og sjá má er nýja varatreyja Newcastle afar lík landsliðstreyjunni. Twitter/Getty

Leikmenn Newcastle munu spila leiki á næstu leiktíð í treyju sem þykir nánast nákvæmlega eins og landsliðstreyja Sádi-Arabíu, á fyrstu heilu leiktíðinni eftir að Sádar eignuðust félagið.

Íþróttavöruframleiðandinn Castore framleiðir treyjur Newcastle og aðalbúningur félagsins er svartur og hvítur.

Á næstu leiktíð verður varabúningurinn hins vegar hvítur og grænn, samkvæmt enskum fjölmiðlum, eða í sömu litum og landsliðstreyja Sádi-Arabíu.

Sádi-arabíski fjárfestingasjóðurinn Public Investment Fund keypti 80 prósent hlut í Newcastle síðasta haust eftir að Mike Ashley hafði átt félagið í 14 ár.

Nýju eigendurnir sverja af sér tengsl við stjórnvöld í Sádi-Arabíu en samkvæmt reglum ensku úrvalsdeildarinnar mega félög ekki vera í ríkiseigu. Eignarhaldið hefur engu að síður verið gagnrýnt og nýju treyjurnar gætu ýtt undir þá gagnrýni.

Nýir eigendur Newcastle voru fljótir að ráða Eddie Howe inn sem knattspyrnustjóra og undir hans stjórn siglir liðið nú lygnan sjó þegar leiktíðinni er að ljúka.

Ljóst er að forríkir eigendur félagsins munu vilja styrkja leikmannahópinn vel í sumar en Howe varaði við því að reglur um fjárhagslegt aðhald myndu hafa áhrif á leikmannakaup sumarsins. Newcastle varði 94 milljónum punda í fimm leikmenn í janúar.

„Reglurnar um fjárhagslegt aðhald setja okkur skorður og við verðum að vinna eftir þeim,“ sagði Howe.

„Við getum ekki bara farið og eytt peningum í leikmenn eins og félög gerðu kannski hérna áður fyrr, þegar þau gjörbreyttu leikmannahópi sínum í einum félagaskiptaglugga. Það er ekki valmöguleiki fyrir okkur,“ sagði Howe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×