Curry var í þrjú ár í Davidson frá 2006 til 2008 og var með 25,3 stig að meðaltali í 104 leikjum fyrir skólann.
Hann er stigahæsti leikmaðurinn í sögu skólans og enginn hefur heldur skorað fleiri þrista eða stal fleiri boltum fyrir skólalið Davidson.
Sumarið 2009 ákvað hann að skrá sig í nýliðavalið í stað þess að klára síðasta árið í skólanum. Curry náði því ekki að útskrifast.
Hann sló síðan í gegn í NBA-deildinni og hefur ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af framtíðinni.
Curry var aftur á móti ákveðinn í að klára háskólaprófið sitt með því að spila í NBA og það tókst honum að gera á þrettán árum. Árið 2015 lofaði hann því að hann myndi klára háskólaprófið.
Congratulations @StephenCurry30! #itsagreatdaytobeawildcat @DavidsonMBB pic.twitter.com/6adJhqCtF5
— Davidson College (@DavidsonCollege) May 15, 2022
Golden State Warriors tilkynnti að Curry væri nú að útskrifast úr Davidson háskólanum. Hann átti eina önn eftir þegar hann fór í NBA og náði að klára síðustu tímanna á þessari vorönn. Curry útskrifast með BA-bróf í félagsfræði.
Davidson háskólinn heiðrar ekki leikmenn skólans nema ef að þeir útskrifast og því loksins núna verður treyja Curry dregin upp í rjáfur í höll skólans.
Curry mætir þó ekki á útskriftina enda upptekinn með Golden State Warriors liðinu í úrslitum Vesturdeildarinnar en sagðist vonast til að gera komið seinna í sumar í Davidson til að veita prófskírteininu sínu viðtöku.
Það er þó ekki eins og Curry þurfi að finna sér nýtt starf eftir að NBA-ferlinum lýkur. Hann hefur þegar unnið sér inn 212 milljónir dollara í laun og þar ekki talinn með 215 milljón dollara samningurinn sem hann skrifaði undir í ágúst 2021.