Í gær var greint frá því að William Cole væri á leið til Dortmund , en þessi ungi og efnilega leikmaður fer til þýska liðsins frá FH.
Hann mun þó æfa með Blikum þangað til hann heldur út í júlí, en þetta staðfesti Sigurður Hlíðar Rúnarsson, deildarstjóri knattspyrnudeildar hjá Breiðabliki, við Fótbolta.net í dag.
„Hann er farinn frá FH og vantaði stað til þess að æfa á þangað til hann fer út í júlí. Við gáfum honum leyfi til þess," sagði Sigurður í samtali við Fótbolta.net, en sagðist þó ekki vita ástæðuna fyrir því að leikmaðurinn væri farinn frá FH.
William Cole á að baki tvo leiki í efstu deild fyrir FH-inga og fjóra í deildarbikarnum. Þá hefur hann spilað fimm leiki fyrir U-17 ára landslið Íslands og skorað í þeim tvö mörk.