Innlent

Flestir vildu Magnús í hrepps­nefnd Skaga­byggðar

Atli Ísleifsson skrifar
Vitinn í Kálfshamarsvík í Skagabyggð.
Vitinn í Kálfshamarsvík í Skagabyggð. Markaðsstofa Norðurlands

Magnús Björnsson bóndi fékk flest atkvæði til setu í óbundnum kosningum til hreppsnefndar í Skagabyggð á laugardaginn.

Magnús hlaut 32 atkvæði, en Kristján Steinar Kristjánsson bóndi hlaut næstflest atkvæði, eða tuttugu. Alls voru 67 á kjörskrá og greiddu 44 atkvæði, sem gerir um 66 prósent kjörsókn. Einn atkvæðaseðill var auður og einn ógildur.

Bjarney Jónsdóttir, sem sæti átti í kjörstjórn, var að störfum í fjósinu þegar fréttastofa náði tali af henni og þuldi upp úrslit kosninganna eftir minni, en Bjarney var einmitt sjálf ein þeirra sem var kjörin í hreppsnefnd í kosningunum á laugardag.

Eftirfarandi munu skipa hreppsnefnd Skagabyggðar næsta kjörtímabil:

  • Magnús Björnsson bóndi, 32 atkvæði
  • Kristján Steinar Kristjánsson bóndi, 20 atkvæði
  • Vignir Sveinsson bóndi, 19 atkvæði
  • Bjarney Jónsdóttir bóndi, 19 atkvæði
  • Erla Jónsdóttir, rekstrarfræðingur og bóndi 15 atkvæði

Við óbundna kosningu eru allir kjósendur í sveitarfélaginu í kjöri með þeirri undantekningu að þeir sem setið hafa í sveitarstjórn eitt kjörtímabil eða lengur geta skorast undan kjöri, tilkynni þeir yfirkjörstjórn það fyrir lok framboðsfrests. Bjarney sagði að þrjú þeirra sem áttu sæti í hreppsnefnd á nýliðnu kjörtímabili hafi skorast undan kjöri að þessu sinni.

Íbúar í Skagabyggð höfnuðu síðasta sumar sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu en þar kusu 29 kusu gegn tillögunni en 24 með henni. Alls greiddu þá 53 íbúar Skagabyggðar atkvæði í kosningunni og voru sjötíu á kjörskrá. 

Tillagan sneri að sameiningu sveitarfélagsins við Blönduósbæ, Húnavatnshrepp og Sveitarfélagið Skagaströnd. Ekkert var því úr sameiningu sveitarfélaganna, en síðan hafa Blönduós og Húnavatnshreppur sameinast.


Tengdar fréttir

Skaga­byggð hafnar sam­einingar­til­lögu

Ekkert verður úr sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu eftir að íbúar Skagabyggðar felldu sameiningartillögu í íbúakosningu í dag. Þar mátti ekki muna mörgum atkvæðum en 29 kusu gegn tillögunni en 24 með henni.

Möguleg hræðsla við að lenda á jaðrinum í stærri byggð

Ekkert verður af sameiningu Skagabyggðar, Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps og sveitarfélagsins Skagastrandar eftir að íbúar Skagabyggðar höfnuðu henni í atkvæðagreiðslu í gær. Sjötíu voru á kjörskrá og greiddu 29 atkvæði gegn sameiningu en 24 með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×