Innlent

Marta María tekur við af Margréti í Hús­stjórnar­skólanum

Atli Ísleifsson skrifar
Marta María Arnarsdóttir og Margrét Sigfúsdóttir á tröppum Hússtjórnarskólans á Sólvallagötu í Reykjavík.
Marta María Arnarsdóttir og Margrét Sigfúsdóttir á tröppum Hússtjórnarskólans á Sólvallagötu í Reykjavík. Aðsend

Marta María Arnarsdóttir tekur við sem skólameistari Hússtjórnarskólans í Reykjavík um mánaðarmótin af Margréti Sigfúsdóttur sem hefur sinnt starfinu í 24 ár.

Marta María er landsmönnum vel kunn eftir að hafa gegnt starfi verkefnastjóra hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en hún stýrði COVID-sýnatökum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á Suðurlandsbraut 34 í heimsfaraldrinum.

 Marta María hefur einnig stundað nám í íslensku og kennslufræðum við Háskóla Íslands og var sjálf nemandi í Hússtjórnarskólanum vorið 2015 og þekkir því skólann vel af eigin raun.

Haft er eftir Mörtu Maríu að starfið hafi lengi heillað sig og hafi hana lengi dreymt um það. 

„Ég þjappaði námi mínu í Menntaskólanum við Hamrahlíð saman til að komast í Hússtjórnarskólann að vori áður en ég hæfi nám í íslensku við Háskóla Íslands að hausti. Í Hússtjórnarskólanum drakk ég í mig alla þá visku sem mér var unnt á meðan ég naut mín til fulls í náminu. Ég hef ætíð hugsað um tímann í skólanum með mikilli hlýju og hef nýtt mér þá hæfni sem ég öðlaðist í skólanum allar götur síðan,” segir Marta María.

Auk þess að hafa verið verkefnastjóri hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur Marta María verið umsjónarkennari í Hvassaleitisskóla í fimm ár, stundakennari og aðstoðarkennari við HÍ og sinnt ýmsum öðrum fræðslustörfum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×