Talsvert hefur verið um viðskipti á genginu 118 krónur á hlut með bréf bankans í morgun en heildarveltan, þegar þetta er skrifað, nemur yfir 440 milljónum króna. Öll félög í Kauphöllinni hafa lækkað í verði frá því að markaðir opnuðu og er Úrvalsvísitalan niður um 2,1 prósent. Hefur hún ekki verið lægri frá því í febrúar í fyrra.
Hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkaði nokkuð fyrst í kjölfar útboðsins og fór hæst upp í rúmlega 130 krónur á hlut í byrjun aprílmánaðar. Frá þeim tíma hefur hins vegar gengi bréfa bankans lækkað um meira en 9 prósent og nemur markaðsvirði bankans nú 236 milljörðum. Eftirstandandi 42,5 prósenta hlutur ríkissjóðs er því í dag metin á rúmlega 100 milljarða króna.
Útboð ríkisins í Íslandsbanka, sem fór fram 22. mars síðastliðinn, hefur sætt talsverðri gagnrýni, meðal annars fyrir þær sakir að rúmlega fimmtungshlutur hafi verið seldur á „afslætti“ til „valinna fagfjárfesta“. Samtals keyptu 207 fagfjárfestar hlut í bankanum í útboðinu en mestu var úthlutað til lífeyrissjóða sem keyptu fyrir tæplega 20 milljarða, eða um 37 prósent þeirrar fjárhæðar sem ríkið seldi. Einkafjárfestar keyptu fyrir um 16 milljarða, innlendir verðbréfasjóðir fengu úthlutað tæplega 6 milljörðum og þá keyptu erlendir sjóðir fyrir um átta milljarða.
Bankasýsla ríkisins, sem sá um framkvæmd útboðsins, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafa alfarið hafnað því að hluturinn hafi verið seldur á undirverði.
Verðið sem ríkissjóður seldi hlut sinn á, sem jafngilti genginu 1,15 miðað við þáverandi bókfært eigið fé bankans, var 117 krónur á hlut, eða rétt rúmlega 4 prósentum lægra en markaðsgengið – 122 krónur á hlut – hafði verið við lokun markaða daginn áður. Sá „afsláttur“ var heldur lægri en forsvarsmenn Bankasýslunnar höfðu búist við þegar ráðist var í söluferlið með hliðsjón af því hversu stóran hlut væri verið að selja með hröðuðu tilboðsfyrirkomulagi í skráðu félagi á markaði.
Í viðtali við sem birtist við Jón Gunnar Jónsson, forstjóra Bankasýslunnar, í breska tímaritinu Euromoney í síðustu viku kom fram að hann teldi að sala ríkissjóðs á 22,5 prósenta hlut í Íslandsbanka í útboðinu í mars hafi heppnast betur en frumútboð bankans í júní í fyrra.
„Við seldum meira en 300 daga magn í Íslandsbanka,“ sagði Jón Gunnar og vísar þar til þess að salan hafi samsvarað um 300 daga veltu með bréf bankans í Kauphöllinni. Hann ber niðurstöðuna saman við sölu Kaupþings á tíu prósenta hlut í Arion banka árið 2019 sem var einnig framkvæmd með tilboðsfyrirkomulagi.
„Til að setja það í samhengi var 150 daga velta seld með 8 prósenta „afslætti“ í framhaldsútboði Arion banka árið 2019.“
Þá hefur evrópska fjármálafyrirtækið STJ Advisors, ráðgjafi Bankasýslunnar í ferlinu, bent á að í þeim útboðum sem höfðu farið fram hjá skráðum evrópskum félögum á árinu á þeim tíma með sambærilegu fyrirkomulagi hafi „afslátturinn“verið að meðaltali um 6,4 prósent. Eftir innrás Rússa í Úkraínu, sem hefur aukið óvissu og veltu á mörkuðum, hefur „afslátturinn“ í slíkum útboðum verið enn meiri, eða um 8,4 prósent að jafnaði.