Frá þessu greinir TMZ-fréttavefurinn, sem er fremstur meðal jafningja þegar kemur að tíðindum úr heimi ríka og fallega fólksins í Hollywood, og hefur eftir heimildamanni sem sagður er standa parinu nærri. TMZ greinir þá frá því að nafn unga drengsins, sem fæddist í Los Angeles, liggi ekki enn fyrir.
Slúðurpressan náði síðast í skottið á parinu þann 9. maí, fjórum dögum áður en drengurinn fæddist. Þá var parið statt í Los Angeles um mæðradagshelgina, sem tíðkast að halda upp á í Bandaríkjunum, og fékk sér að borða á veitingastaðnum Giorgio Baldi.
Það var í janúar síðastliðinn sem parið tilkynnti um að það ætti von á sínu fyrsta barni, aðdáendum beggja til mikillar gleði og ánægju.
Í síðasta mánuði komst orðrómur um ástarlíf parsins á kreik, þess efnis að Rocky hefði haldið fram hjá Rihönnu, með skóhönnuðinum Aminu Muaddi, sem starfar fyrir Fenty, tískuvörumerki í eigu Rihönnu.
Aðdáendur söngkonunnar heimsfrægu urðu æfir og olli orðrómurinn miklu fjaðrafoki í þeim kimum Internetsins sem sýsla með líf hinna ríku og frægu. Orðrómurinn var þó fljótt kveðinn í kútinn og reyndist enginn fótur fyrir honum, ef marka má virtustu slúðurblöðin vestan hafs.