Í kosningunum fékk Miðflokkurinn þrjá fulltrúa, Sjálfstæðisflokkurinn tvo, Framsóknarflokkurinn einn, og Rödd unga fólksins einn.
Viðræður sem gengu ekki upp
Í kvöld gaf Rödd unga fólksins frá sér yfirlýsingu þar sem greint var frá því að flokkurinn ætli ekki í meirihlutasamstarf með Miðflokknum. Áður höfðu viðræður Miðflokksins við Framsóknarflokkinn ekki gengið upp.
Fram kemur í yfirlýsingunni að flokkarnir hafi rætt þrisvar saman til að reyna að taka ákvörðun en að lokum ákvað Rödd unga fólksins að stíga úr viðræðunum.
„Margir vilja ekki bera saman flokka í alþingis- og sveitastjórnakosningum. Það reynir töluvert á það þegar oddviti Miðflokksins í Grindavík er í stjórn Miðflokksins á landsvísu. Orðræða og vinnubrögð Miðflokksins á landsvísu samræmast ekki gildum Raddar unga fólksins,“ segir í yfirlýsingunni.
Kom flokksmönnum á óvart
Í samtali við fréttastofu segir Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, oddviti Miðflokksins í Grindavík, að þetta hafi komið flokksmönnum afar mikið á óvart.
„Við höfum ákveðið að gefa hinum sviðið í bili, það er fullreynt hjá okkur,“ segir Hallfríður og gefur boltann yfir til Sjálfstæðisflokksins.
Hún segir að báðir flokkar hafi komist að þeirri niðurstöðu að leyfa hvorum öðrum að ræða við minni flokkana, Rödd unga fólksins og Framsóknarflokkinn, og reyna að mynda meirihluta með þeim.
„Við höfum aldrei útilokað neitt samstarf,“ segir Hallfríður aðspurð hvort Miðflokksmenn gætu myndað meirihluta með Sjálfstæðisflokknum.