Samkvæmt belgískum miðlum tóku heilbrigðisyfirvöld ákvörðunina síðastliðinn föstudag. Þeim sem greinast með veiruna er ekki gert að sæta einangrun en skulu forðast umgengni við viðkvæma hópa. Frá þessu er greint á vef Politico.
Apabóla er veirusýking sem oftast er mild og jafna flestir sig á á nokkrum vikum. Heilbrigðisyfirvöld eru þó nokkuð uggandi yfir hinni óvenjulegu dreifingu utan Afríku þar sem veiran hreiðrar vanalega um sig. Belgískir vísindamenn hafa þó talið litlar líkur á stærri faraldri apabólu þar í landi.
Á laugardag greindi Alþjóðaheilbrigðisstofnunin frá því að 92 tilfelli hefðu greinst í tólf mismunandi löndum, en þá eru 28 tilfelli sem bíða frekari rannsóknar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir hefur áréttað að um sé að ræða afskaplega sjaldgæfa sýkingu en að ekki sé útilokað að hún berist hingað til lands. Almenningur og heilbrigðisstarfsmenn séu beðnir um að hafa sýkinguna í huga, sérstaklega hjá þeim sem hafi verið á ferð erlendis og séu með einkennandi útbrot.