„Nú hef ég boðað Framsóknarfólk til fundar á Hverfisgötu í kvöld. Það er mikilvægt að kjörnir fulltrúar eigi samtal við grasrót flokksins til að ræða þá stöðu sem komin er upp og ég býst við að sá fundur verði líflegur og málefnalegur,“ segir Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar.
Öll á lista flokksins auk stjórna Framsóknarfélaga í Reykjavík eru boðuð til að ræða það að einungis einn kostur er nú á borðinu - ætli Framsókn að taka þátt í meirihlutaviðræðum.
„Viðreisn hefur lokað á samstarf með Sjálstæðisflokki, Vinstri Græn ætla ekki að mynda meirihluta með öðrum flokkum og þá er ekki hægt að telja upp í tólf með stjórn til hægri.“
Viðræður við Samfylkingu, Pírata og Viðreisn blasa því við. Einar segir það ekki sjálfsagðan kost fyrir Framsókn og því þurfi að ræða málið. Hann segir málefnalegan samhljóm meðal flokkanna að miklu leyti til staðar en telur þó kjósendur hafa kallað eftir breytingum.

„Þetta ákall er líka innan Framsóknarflokksins. Við þurfum bara að meta það hvernig við getum best náð árangri næstu fjögur árin og hvar við getum knúið fram breytingar í borginni,“ segir Einar.
Hann telur Framsókn í sterkri stöðu gagnvart hinum flokkunum. „Vegna þessa skýra ákalls sem er um breytingar í borginni. Þá er Framsókn í sterkri samningsstöðu.“
Einar segir oddvita flokkanna í reglulegu sambandi en engin ákvörðun hefur enn verið tekin um formlegar viðræður og fundur er ekki kominn á dagskrá. Hann segir Framsóknarfólk hafa áhuga á stóli borgarstjóra.
„Að sjálfsögðu vill Framsókn komast í þá stöðu þar sem hún getur haft mest áhrif.“