„Við erum bara á lokametrunum með þetta. Vinnan hefur gengið vel og við vonumst að það verði eitthvað að frétta frá okkur í vikunni. Við stefnum að því en erum bara að vanda til verka,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi í samtali við fréttastofu.
Formlegar viðræður milli flokkanna hófust á fimmtudag og gerði Ásdís tilkall til bæjarstjórastólsins daginn eftir. Hún segir það enn vera línuna.
„Við höfum sagt það opinberlega að sem stærsti flokkurinn gerum við tilkall til bæjarstjórastólsins en svo kemur það í ljós þegar við kynnum málefnasamninginn hvernig við skiptum hlutverkum á milli okkar,“ segir Ásdís.
Þó sé ekki verið að horfa frekar á málefnin en hlutverkin heldur sé verið að vinna þetta heildstætt.
„Við erum að horfa á þetta heildstætt. Annars vegar að skipta með okkur hlutverkum en svo hefur vinnan núna síðustu daga farið í að móta áherslur okkar sameiginlega og forgangsraða þeim verkefnum sem við ætlum að klára á kjörtímabilinu.“