Viðskipti innlent

Fyrrum fé­lag Björg­ólfs og Róberts endaði í fjór­tán milljarða þroti

Eiður Þór Árnason skrifar
Björgólfur Thor Björgólfsson og Róbert Wessman.
Björgólfur Thor Björgólfsson og Róbert Wessman.

Skiptum er lokið í þrotabúi Mainsee Holding ehf. en engar eignir fundust upp í lýstar kröfur sem námu 13,87 milljörðum króna. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í febrúar árið 2018.

Greint er frá þessu í Lögbirtingablaðinu í dag en Mainsee Holding var móðurfélag þýska fyrirtækisins Mainsee Pharma GmbH. Mainsee Holding var stofnað árið 2007 af Novator Pharma II, sem var í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, og Salt Pharma, sem var að stærstum hluta í eigu Róberts Wessman.

Tveir kröfuhafar lýstu kröfum í þrotabú Mainsee ehf. Annars vegar Glitnir Holdco, sem heldur utan um eignir hins fallna Glitnis, upp á 9,1 milljarð króna og hins vegar Björgólfur Thor sem lýsti kröfum upp á 4,7 milljarða króna.

Stefndi Glitni HoldCo

Fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins að Glitnir HoldCo hafi tekið yfir Mainsee Holding seint árið 2009 og síðar selt það dótt­ur­fé­lagi bank­ans, GL Investments ehf. Í kjölfarið seldi bank­inn þýsku dótt­ur­fé­lagi Actavis Group hf. lyf­sölurekstur og ýmsar eigur Mainsee Pharma GmbH. 

Mainsee höfðaði riftunarmál gegn Glitni Holdco vegna kaupa Glitnis á 6,7 milljóna evra kröfu á hendur Salt Investments, félags í eigu Róberts sem fór með hlutinn í Salt Pharma. Um var að ræða fjárhæð sem kom til lækkunar á kröfu Glitnis á hendur Mainsee GmbH. 

Glitnir HoldCo var skýknað af riftunarkröfu þrotabús Mainsee Holding ehf. í héraðsdómi Reykjavíkur árið 2020, líkt og fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins. Var þrotabúið dæmt til að greiða Glitni HoldCo 4,5 milljónir króna í málskostnað en málareksturinn var fjármagnaður af Björgólfi Thor. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×