AP-fréttastofan hefur eftir Grace Iringe-Koko, talskonu lögreglunnar í Rivers-ríki að mörg fórnarlambanna á markaðinum hafi komið þangað í leit að aðstoð. Slíkir markaðir eru sagðir algengir í Nígeríu þar sem fleiri en áttatíu milljónir manna búa undir fátæktarmörkum.
Opna átti markaðinn klukkan níu að morgni að staðartíma en Iringe-Koko segir að tugir manna hafi verið mættir klukkan fimm til þess að tryggja sér pláss framarlega í röðinni. Tókst fólkinu að brjótast inn um læst hlið og upphófst þá mikill troðningur sem kostaði fjölda mannslífa.
Auk þeirra látnu slösuðust sjö manns. Læknar og sjúkraliðar hlúðu að þeim undir beru loft við markaðinn. Viðburðurinn var stöðvaður á meðan lögreglan rannsakaði hvernig troðningurinn hófst.