Lífið

„Þá hefði ég mögulega ekki orðið tónlistarmaður“

Elísabet Hanna skrifar
Jón Jónsson er nýbakaður faðir í fjórða skipti.
Jón Jónsson er nýbakaður faðir í fjórða skipti. Vísir/Vilhelm

Jón Jónsson er í dag þekktur sem einn ástsælasti tónlistarmaður landsins en hann segist hafa lagt góðan grunn áður en hlutirnir fóru að rúlla. Hann segir ástarsorg um tvítugt hafa mótað sig og lífið hans hvað mest. 

Jón var gestur í Jákastinu hjá Kristjáni Hafþórssyni þar sem hann ræddi meðal annars tónlistina, ferlinn síðustu tólf árin, fótboltann, lífið í Boston, hlaupin, þjóðhátíðarlögin, ástina og lífið. 

Þáttinn má heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

Eitt og hálft mark

Í dag er Jón aðallega í hlaupum þegar kemur að hreyfingu en segir fótboltaferilinn hafa kennt sér mikið um þolinmæði, dugnað og að oft taki langan tíma að byggja upp eitthvað gott. Hann segist ekki hafa farið að spila leiki af viti með FH fyrr en árið 2013 þrátt fyrir að hafa æft íþróttina lengi. 

„Búinn að sitja bara á bekknum, þolinmóður og æfa vel, þegar maður horfið á þetta var þetta alveg þolinmæði par excellence.“

Sem fótboltamaður á hann eitt mark í efstu deild. „Ég á eitt og hálft eiginlega, 2017 þá þrýsti ég honum í fjær á móti Víking en hann fór í einhvern varnarmann og inn og þeir skráðu það sjálfsmark,“ segir hann glettinn um markið sem hann vill telja með en bætir við: „Svo er líka alveg nett að eiga bara eitt og alveg legendary mark.“

Hann segist ávallt setja fjölskylduna í fyrsta sæti og er hreyfingin engin undantekning á þeirri forgangsröðun en hann segist ná að púsla því ágætlega saman. 

Ástin er hrein

Hann rifjar upp að lagið Ástin er hrein hafi ekki hlotið tilnefningu sem lag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár sem vakti upp undrum margra, meðal annars Bubba:

Jón segir það gott og blessað að lagið hafi ekki verið tilnefnt en fannst fyndinn punktur sem útvarpsmaðurinn Óli Palli kom með: „Þeir bræður eru allsstaðar en ég hef ekkert illt um þá að segja.“

„Það er samt enginn punktur, að við séum allsstaðar, eigum við þá ekki að fá verðlaun?“

segir Jón. 

Jón og GDRN tóku lagið vinsæla á Hlustendaverðlaununum í mars.

Aftur á móti hafa bræðurnir haldið í það hugarfar að stytta sé vissulega frábær en það að fólk vilji fá þá til þess að fagna með sér sínum stóru stundum og vilji kaupa miða til þess að koma að sjá þá, sá kærleikur sé það sem skiptir öllu máli. 

Bræðrabönd

Hann segir það vera algjör forréttindi að fá að starfa í tónlist og í sama fagi og bróðir sinn, Friðrik Dór Jónsson. Það geri það að verkum að þeir fái að eyða miklum tíma saman og hafi algjöran skilning á starfi hvors annars og geti unnið að verkefnum saman eins og þjóðhátíðarlögin 2018, þar sem þeir prófuðu sig áfram í rappinu.

Að sama skapi segir hann það heppilegt að geta oft gert fjölskylduferðir úr skemmtunum úti á landi.

„Fjölskyldan með og allt að gerast bingó, lottó.“

Upplifði ástarsorg

Aðspurður hvaða atvik hafi mótað hann mest sem persónu er hann fljótur með svar, fyrir utan ákvörðunina að fara í Verzló, þar sem hann kynntist meðal annars ástinni sinni:

„Við Hafdís hættum saman einu sinni í eitt ár, þá bæði gat maður upplifað það að vera með brotið hjarta en líka þá var ég bara fokk it og fór til Boston. Ég hefði aldrei gert það og þá hefði ég mögulega ekki orðið tónlistarmaður.“

Hann samdi mikið af fyrstu plötunni sinni þar úti og fékk mikla reynslu af því að koma fram á börum þar sem hann söng bæði frumsamin lög og efni frá öðrum. Sambandsslitin, sem áttu sér stað árið 2005, entust þó ekki lengi og byrjuðu þau aftur saman þegar hann hafði verið úti í námi í tvo mánuði þaðan sem hann útskrifaðist sem hagfræðingur. 

Í framhaldinu tóku við þrjú ár af fjarsambandi. Jón segist vilja meina að gæði fram yfir magn í samskiptum séu lykillinn að góðu fjarsambandi en í dag eru þau hamingjusamlega gift og eiga fjögur börn.

„Það eru ákveðin spor í lífinu sem hafa verið meiri gæfuspor en önnur.“

Tengdar fréttir

Nýr Friðrik kominn í fjölskylduna

Tónlistarmaðurinn Jón Jónsson og Hafdís Björk Jónsdóttir tannlæknir eignuðust sitt fjórða barn á dögunum en fyrir áttu þau einn son og tvær dætur.

„Ég var ógeðslega svekktur“

Tónlistarmaðurinn Hreimur Örn Heimisson rifjar upp ævintýrið í kringum Land og syni þegar sveitin var á leiðinni utan þar sem hún ætlaði að slá í gegn. Örlögin gripu aftur á móti í taumana þann 11. september 2001. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.