Innherji

Stefnir með um fimmtungshlut í Nova og félagið metið á 19,5 milljarða í útboðinu

Hörður Ægisson skrifar
Í útboði Nova, sem hefst á föstudaginn og stendur út alla næstu viku, stendur til að selja á bilinu 37 til 44,5 prósenta hlut í félaginu.
Í útboði Nova, sem hefst á föstudaginn og stendur út alla næstu viku, stendur til að selja á bilinu 37 til 44,5 prósenta hlut í félaginu. GUNNAR SVANBERG SKULASON

Sjóðastýringarfyrirtækið Stefnir, dótturfélag Arion banka, er næst stærsti hluthafi Nova en sjóðir í rekstri þess fara með samanlagt um 18 prósenta hlut í fjarskiptafélaginu sem hefur boðað til hlutafjárútboðs næstkomandi föstudag sem mun standa yfir út næstu viku, eða til 10. júní. Í kjölfarið verður félagið skráð á Aðalmarkað í Kauphöllinni þriðjudaginn 21. júní.

Þetta kemur fram í skráningarlýsingu Nova, sem var birt fyrir skemmstu, en þar upplýst um að selja eigi rúmlega 37 prósenta hlut í félaginu fyrir samtals um 7,2 milljarða króna – miðað við lágmarksgengið í útboðinu upp á 5,11 krónur á hlut – en með möguleika á að stækka það í allt að 44,5 prósenta hlut. Verði það gert mun söluandvirðið vera að lágmarki um 8,7 milljarðar króna.

Miðað við lágmarksgengið sem er ákvarðað í útboðinu, rétt eins og Innherji greindi frá í morgun, þá er hlutafé Nova verðmetið á samtals 19,5 milljarða króna. Það er sami verðmiði og þegar þrír framtakssjóðir í rekstri Landsbréfa, Stefnis og Íslandssjóða fóru fyrir kaupum hóps fjárfesta á um 36 prósenta hlut í félaginu í apríl fyrir samtals um sjö milljarða króna.

Tæplega 496 milljónir hlutir, eða 35 prósent af útboðinu, verða seldir í tilboðsbók A á föstu gengi – 5,11 krónur á hlut – en þar verður hægt að bjóða á bilinu 100 þúsund krónur til 20 milljónir í áskriftir. Hlutfallsleg skerðing verður á áskriftum en stefnt er að því að skerða ekki tilboð undir fimm milljónum frá starfsmönnum Nova, undir einni milljón króna frá viðskiptavinum Nova og undir fimm hundruð þúsund frá öðrum almennum fjárfestum. Í tilboðsbók B verða seldir tæplega 921 milljónir hluta, eða um 65 prósent af útboðinu, á tilboðsverði – þó ekki undir genginu 5,11 – og lágmarkstilboð í áskrift er 20 milljónir króna.

Það er fyrirtækjaráðgjöf Arion banka sem hefur umsjón með útboði og skráningu fjarskiptafélagsins.

Hinir nýju fjárfestar, sem komu inn í hlutahóp Nova í byrjun apríl, stóðu að baki 3,5 milljarða króna hlutafjáraukningu – hún var á genginu 5,11 krónur á hlut og sögð til að styðja við frekari fjárfestingar á 5G fjarskiptakerfinu og styrkja efnahagsreikninginn – auk þess sem hluthafar Nova seldu þeim hluta af sínum bréfum. Þar var fyrst og fremst um að ræða félagið Nova Acquisition, sem er í eigu bandaríska framtakssjóðsins Pt Capital, sem fer núna með samtals um 53 prósenta hlut sem stærsti hluthafinn. Fyrir söluna var félagið með 89 prósenta eignarhlut.

Pt Capital eignaðist fyrst 50 prósenta hlut í fjarskiptafyrirtækinu árið 2017 en sjóðurinn keypti síðan eftirstandandi helmingshlut Novator í ágúst í fyrra og eignaðist við það nærri allt hlutafé Nova.

Stærstu hluthafar Nova.

Sjóðir í stýringu Stefnis voru langsamlega umsvifamestir þegar hópur fjárfesta keypti rúmlega þriðjungshlut í Nova fyrir tæplega tveimur mánuðum og fara þeir núna sem fyrr segir með samanlagt um 18 prósenta hlut. Sjóðir í rekstri Íslandssjóða eru samtals með um 6,6 prósenta hlut en sjóðir Landsbréfa eiga um 4,2 prósenta hlut.

Á meðal stærri einkafjárfesta í hluthafahópi Nova eftir kaupin eru félögin Atrium Holding, sem er í eigu Gísla Vals Guðjónssonar, fyrrverandi stjórnarmanns í Nova og framkvæmdastjóra Ísafold Capital Partners, með 4,6 prósent og þá á fjárfestingafélagið Adira 2,6 prósenta. Það félag, sem er í helmingseigu Jónasar Hagans Guðmundssonar, er meðal annars aðaleigandi Nespresso á Íslandi og stærsti hluthafi hugbúnaðarfyrirtækisins Wise.

Þá fara þeir feðgarnir Guðni Rafn Eiríksson, eigandi Apple umboðsins á Íslandi og stór hluthafi í Skel fjárfestingafélagi, og Eiríkur Ingvar Þorgeirsson, fjárfestir og augnlæknir, samanlagt með tæplega þriggja prósenta hlut í gegnum félögin GE Capital og ET sjón.

Lykilstjórnendur Nova eiga samanlagt 6,4 prósenta hlut í félaginu. Þar af nemur eignarhlutur Margrétar Tryggvadóttur, forstjóra Nova, tæplega þremur prósentum sem hún á bæði á eigin nafni og eins í gegnum eignarhaldsfélagið M&M Partners. 

Þeir fjárfestar sem munu selja hluti sína í útboðinu eru félögin Nova Acquisition og Atrium Holding.

Úr fjárfestakynningu Nova.

Afkomuspá Nova fyrir þetta ár gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) verði á bilinu um 3,35 til 3,55 milljarðar króna. Það jafngildir EBITA hlutfalli upp á um 27 prósent en gert er ráð fyrir sölutekjur Nova á þessu ári verði á bilinu 12,7 milljarðar til 12,95 milljarðar króna.

Í nýju árshlutauppgjöri Nova kemur fram að tekjur félagsins á fyrstu þremur mánuðum ársins hafi aukist úr 2,76 milljörðum króna í 2,94 milljarða króna. EBITA félagsins hækkaði um meira en 100 milljónir frá sama tíma í fyrra og var um 816 milljónir. Hagnaður félagsins eftir skatt var hins vegar 90 milljónir borið saman við hagnað upp á 351 milljón króna á fyrsta fjórðungi í fyrra.

Nokkur óvissa hefur verið að undanförnu, eins Innherji fjallaði um fyrr í dag, hvort farið yrði í hlutafjárútboð Nova á þessum tímapunkti í ljósi krefjandi markaðsaðstæðna. Flest skráð félög hafa lækkað talsvert á síðustu vikum og Úrvalsvísitala Kauphallarinnar er niður um 11 prósent á einum mánuði. Frá áramótum hefur hún fallið um liðlega 21 prósent, meira en margar aðrar hlutabréfavísitölur í löndunum í kringum okkur.

Úr fjárfestakynningu Nova.

Eftir góða niðurstöðu í hlutafjárútboði Ölgerðarinnar í liðinni viku var hins vegar ákveðið að halda sig við áður boðuð áform um að ráðast í útboð á skráningu á Nova á fyrri árshelmingi þessa árs. Rúmlega fjórföld eftirspurn reyndist í útboði Ölgerðarinnar – samtals bárust 6.600 áskriftir fyrir samanlagt meira en 32 milljarða – þar sem að lokum var seldur 29,5 prósenta hlutur fyrir 7,9 milljarða.

Nova, sem er eitt af stærstu fjarskiptafyrirtækjum landsins, var stofnað árið 2006 og samtals starfa um 150 manns hjá félaginu á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og Selfossi. Frá árinu 2015 hefur árlegur tekjuvöxtur Nova verið að jafnaði um 8,1 prósent og EBITDA vöxtur yfir sama tímabil að meðaltali um 7,9 prósent á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×