Fótbolti

Real Madrid stendur með Liverpool og krefst svara frá UEFA

Valur Páll Eiríksson skrifar
Lögregla sprautar táragasi yfir stuðningsmenn Liverpool á laugardagskvöld.
Lögregla sprautar táragasi yfir stuðningsmenn Liverpool á laugardagskvöld. Matthias Hangst/Getty Images

Meistaradeildarmeistarar Real Madrid hafa farið fram á svör frá Evrópska knattspyrnusambandinu vegna „raða óheppilegra atburða“ þegar úrslit Meistaradeildarinnar milli liðsins og Liverpool fór fram í París síðasta laugardag.

Margt hefur verið rætt og ritað um leikinn sem frestaðist um 36 mínútur þar sem aðdáendur Liverpool komust ekki inn á völlinn. Fjölmargar sögur frá stuðningsmönnum Liverpool sem segjast ekkert hafa af sér gert hafa flogið um vefinn. Táragasi var sprautað yfir fólk og mikill troðningur myndaðist er fólk beið klukkustundum saman eftir að komast inn á völlinn.

Frönsk yfirvöld hafa kennt stuðningsmönnum um það sem átti sér stað við dræmar undirtektir. Billy Hogan, framkvæmdastjóri Liverpool, sagði umsögn Frakka skammarlega og Liverpool hefur gert kröfu um svör, líkt og Real.

Í yfirlýsingu sinni sagði Real „röð óheppilegra atburða“ hafa átt sér stað „í kringum völlinn og við miðahlið á Stade de France, jafnvel innan vallarins sjálfs“ og að stuðningsmenn hafi verið fórnarlömb aðstæðnanna.

„Við viljum vita ástæðurnar að baki þeirri ákvörðun að þessi staðsetning var valin til að halda úrslitaleikinn og hvaða viðmið voru viðhöfð í valinu,“ segir í yfirlýsingu Real Madrid.

UEFA hefur þegar tilkynnt um óháða rannsókn á atvikum laugardagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×