Fótbolti

Messi skoraði öll fimm gegn Eistum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Messi fagnar einu fimm marka sinna.
Messi fagnar einu fimm marka sinna. Juan Manuel Serrano Arce/Getty Images

Argentína vann 5-0 sigur á Eistlandi í æfingaleik á Spáni í kvöld. Lionel Messi fór á kostum og skoraði öll fimm mörk Argentínu.

Messi hefur átt strembið tímabil, hans fyrsta með Paris Saint-Germain í Frakklandi, þar sem Covid-smit setti strik í reikninginn. Hann virðist vera að fóta sig á ný en hann skoraði fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu á níundu mínútu.

Annað mark Messi var rétt fyrir hálfleik og það þriðja skömmu eftir hlé. Hann skoraði þá tvö mörk á fimm mínútna kafla þegar um stundarfjórðungur var eftir leik kvöldsins.

Argentína hefur þegar tryggt sæti sitt á HM í Katar í vetur og var leikur kvöldsins hluti af undirbúningi fyrir mótið. Argentína verður í C-riðli mótsins ásamt Mexíkó, Sádí-Arabíu og Póllandi.

Leikur kvöldsins var 162. landsleikur Messi en hann hefur nú skorað 86 mörk fyrir Argentínu. Með mörkunum fimm varð hann fjórði markahæsti landsliðsmaður sögunnar og komst upp fyrir Ungverjann Ferenc Puskás sem skoraði 84 landsliðsmörk. Messi er á eftir Cristiano Ronaldo (115 fyrir Portúgal), Ali Daei (109 fyrir Íran) og Mokhtar Dahari (89 fyrir Malasíu).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×