Sport

„Albanía skapaði sér ekki neitt og við áttum að klára leikinn“

Andri Már Eggertsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson skoraði eina mark Íslands
Jón Dagur Þorsteinsson skoraði eina mark Íslands Vísir/Diego

Jón Dagur Þorsteinsson, leikmaður A-landsliðs karla, skoraði eina mark Íslands í 1-1 jafntefli gegn Albaníu í Þjóðadeild UEFA. Jón Dagur var svekktur með að hafa ekki náð í sigur á Laugardalsvelli í kvöld.

„Ég var svekktari eftir þennan leik heldur en síðasta gegn Ísrael. Mér fannst við fá hættulegri færi en þeir í bæði í fyrri og seinni hálfleik,“ sagði Jón Dagur Þorsteinsson í samtali við Vísi eftir leik.

Albanía komst yfir þegar tæplega hálftími var liðinn af leiknum og var Jón Dagur svekktur með sauðshátt Íslands í markinu. 

„Mér fannst við sofna á verðinum í marki Albaníu. Mér fannst við of lengi að hafa áhrif á það sem þeir voru að gera sem skapaði markið. Albanía skapaði sér ekki neitt og við áttum að klára þennan leik, þetta var ekki flóknara en það.“

Klippa: Jón Dagur Þorsteinsson eftir landsleikinn gegn Albaníu

Ísland mætti inn í síðari hálfleik af miklum krafti og var Jón Dagur ánægður með þær breytingar sem liðið gerði í hálfleik.

„Við komum ofar á völlinn í síðari hálfleik og mér fannst það virka. Við sköpuðum okkur færi en mér fannst vanta upp á síðustu sendinguna en við tökum eitt stig og áfram gakk.“

Tæplega fimmtán mínútum frá marki Jóns Dags var hann tekinn af velli og taldi hann sig ekki rétta manninn til að svara hver sú ástæða væri.

„Ég er ekki rétti maðurinn til að svara fyrir það. Við erum að spila fjóra leiki og þurfum á öllu liðinu að halda. Menn komu flottir af varamannabekknum,“ sagði Jón Dagur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×