Innlent

Ísland reki lestina í Evrópu

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri og Sigurjón R. Rafnsson, formaður SAFL.
Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri og Sigurjón R. Rafnsson, formaður SAFL. Aðsent

Fulltrúar stærstu fyrirtækja í íslenskum landbúnaði komu saman í mars á þessu ári og stofnuðu Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL). Samtökin segja að rétta þurfi þann mikla aðstöðuhalla sem íslenskur landbúnaður búi við í samanburði við önnur evrópsk ríki.

Margrét Gísladóttir, sérfræðingur hjá Mjólkursamsölunni gegnir stöðu framkvæmdastjóra samtakanna og Sigurjón R. Rafnsson embætti formanns.

Sigurjón segir í tilkynningu að nauðsynlegt sé að fyrirtæki í landbúnaði eigi aðild að hagsmunasamtökum sem geti verið í forsvari gagnvart stjórnvöldum í málum sem snerti þeirra hagsmuni. Sigurjón segir enn fremur að Ísland reki lestina í samanburði við önnur evrópsk ríki þegar kemur að hinni ýmsu aðstoð sem landbúnaður njóti. 

Í því samhengi nefnir hann víðtækar undanþágur frá samkeppnislögum, aðlögun reglugerða að aðstæðum hvers ríkis, beinan stuðning tengdan framleiðslu og stuðning sem tengist ekki framleiðslu, svo sem vegna byggðamála og grænna lausna. Reiknaður stuðningur eins og tollvernd hafi hrapað á síðustu árum vegna samninga sem gerðir hafi verið við önnur ríki en séu íslenskum landbúnaðarfyrirtækjum óhagstæðir.

Samtökin hyggjast einnig einblína á að gæta hagsmuna íslenskra landbúnaðarfyrirtækja og halda uppi umræðu um starfsumhverfi og starfsskilyrði landbúnaðar, til dæmis með hliðsjón af nýrri löggjöf ásamt því að auka verðmæti og sjálfbærni í íslenskum landbúnaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×